Klassík í hádeginu | Schumann - Rómönsur Clöru og Sónata Róberts

Klassík í hádeginu | Hlíf Sigurjónsdóttir og Nína Margrét Grímsdóttir

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi

Föstudaginn 11. nóvember kl. 12.15 - 13.00
Tónleikarnir verða endurteknir sunnudaginn 13. nóvember kl. 13.15 - 14.00
Ókeypis aðgangur

Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari og Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari flytja kammerverk Schumann hjónanna – fyrir valinu urðu lýrískar og sjaldheyrðar Rómönsur Clöru og dramatísk fiðlusónata Róberts í a-moll. Verkin tengjast góðlátlega þegar Clara vitnar í aðalstef sónötu Róberts í fyrstu Rómönsunni enda var hún þaulkunnug tónsmíðum hans sem listamaðurinn sem frumflutti flestar þeirra, þar með talda fiðlusónötuna í a-moll. 

Efnisskrá

Clara Schumann (1819-1896): Þrjár Rómönsur óp. 22 (1853)

I Andante molto
II Allegretto Mit zarten Vortrage
III Leidenschaftlich schnell

Robert Schumann (1810-1856): Sónata óp. 105 í a-moll (1851)

I Mit leidenschaftlichem Ausdruck
II Allegretto
III Lebhaft

Um flytjendur

Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp í Reykjavík. Hún kom fyrst opinberlega fram 11 ára gömul er hún lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðar til framhaldsnáms við Háskólana í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff og nam einnig hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg. Á námsárum sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oistrach.

Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada. Hún hefur frumflutt mörg tónverk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana. Hlíf hefur leikið inn á upptökur fyrir útvarp og sjónvarp og nokkra geisladiska við frábæran orðstír. Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins gaf geisladisknum 44 Dúó með verkum eftir Béla Bartók fimm stjörnur með orðunum „Þjóðleg innlifun á heimsmælikvarða“. Í ágúst 2008 kom út tvöfaldur geisladiskur með leik hennar á öllum þremur sónötum og þremur partítum eftir Johann Sebastian Bach.

Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1985, LGSM prófi frá Guildhall School of Music and Drama, Meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Nína Margrét hefur komið fram á Íslandi, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari, með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref. Nína Margrét hefur verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Klassík í hádeginu í Gerðubergi frá upphafi og er ennfremur listrænn stjórnandi Reykjavik Classics í Eldborg Hörpu. Hún hefur kennt við tónlistarháskóla hérlendis og erlendis auk þess að flytja reglulega fyrirlestra og masterklassa um tónlist og tónlistarrannsóknir. Árið 2014 var doktorsritgerð hennar um píanóverk Páls Ísólfssonar gefin út af Lambert Academic Publishing í Þýskalandi. 
------
Klassík í hádeginu hefur verið á dagskrá Gerðubergs frá árinu 2008.
Boðið er upp á fjölbreytta og metnaðarfulla dagskrá sem miðast við að gefa almenningi aðgang að klassískri tónlist og flytjendum í hæsta gæðaflokki.
Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari hefur frá upphafi stýrt tónleikaröðinni. 

Dagsetning viðburðar: 

Föstudagur, 11. nóvember 2016

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

12:15

Viðburður endar: 

13:00