Sigga Björg Sigurðardóttir
Verk eftir Siggu Björgu Sigurðardóttur

Um þennan viðburð

Tími
16:00 - 18:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Sýningar

Stanslaus titringur | Útgáfuhóf

Fimmtudagur 24. júní 2021

Sigga Björg býður gestum að fagna með sér útgáfu á fágætum grafíkverkum í tengslum við sýninguna Stanslaus titringur. Útgáfuhófið er öllum opið.

Sýningin Stanslaus titringur var opnuð í byrjun júní en færð á vinnslustig vegna skemmdarverka sem unnin voru nokkrum dögum eftir opnun. Listakonan vinnur nú að lagfæringu verkanna og því stendur sýningin áfram sem verk í vinnslu.

Sigga Björg áritar grafíkverkin, gefur út og selur á staðnum í litlu, númeruðu upplagi. Verkin eru bleksprautuprentuð á sýrufrían pappír með pigment litum. Einungis er um upplag af 5 verkum að ræða sem prentuð eru í stærðinni A2.

Myndheimur Siggu Bjargar hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar síðastliðið ár og þróast í nýjar áttir bæði hvað varðar efnisval og innihald. Hún teiknar hömlulaust og leyfir öllu að flæða í óritskoðuðu vinnuferli. Útkoman er oftar en ekki sería af teikningum þar sem mannleg hegðun, frumstæðar kenndir og tilfinningar birtast í sínu hráasta formi. Listamaðurinn kannar þannig oft á tíðum óljós mörkin milli mennskunnar og hins dýrslega. Ritskoðunin á verkunum felst svo í að velja hvaða verk fara á sýningu. Á sýningu sinni í Gerðubergi hefur Sigga Björg gengið skrefinu lengra og stækkað valin verk úr nýrri seríu af teikningum og málað beint á veggi rýmisins.

Sigga Björg Sigurðardóttir (f. 1977) er listamaður búsett í Reykjavík. Sigga Björg lauk MFA gráðu frá Glasgow School of Art 2004, og hefur síðan sýnt verk sín víða um heim. Hægt er að kynna sér feril hennar á vefsíðunni www.siggabjorg.net.

Sýningin stendur til 13. ágúst og er opin alla virka daga frá kl. 8:00 – 18:00. 

Nánari upplýsingar veitir:

Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri Borgarbókasafnsins Gerðubergi
ilmur.dogg.gisladottir@reykjavik.is
S. 698 0298