Sigrún Pálsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Sölvi Björn og Fríða Ísberg

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 21:30
Verð
Frítt
Kaffistundir

FRESTAÐ Bókakaffi | Skáldskapur úr bókaflóði

Miðvikudagur 19. janúar 2022

Vinsamlegast athugið að viðburðinum hefur verið frestað til 4. maí.

Á bókakaffi í Gerðubergi á nýju ári mæta fjórir dásamlegir rithöfundar úr bókaflóðinu. Þau Kristín Ómarsdóttir sem gaf út smásagnasafnið Borg bróður míns, Sölvi Björn Sigurðsson með bók sína Kóperníka: skáldsaga um morð, ást og viðurstyggð, Sigrún Pálsdóttir  en nýjasta skáldverk hennar nefnist Dyngja, tilnefnt til Fjöruverðlauna og Fríða Ísberg er með sína fyrstu skáldsögu, Merking, einnig tilnefnd til Fjöruverðlauna. Fríða gaf einnig út skáldsöguna Olía fyrir jólin ásamt skáldakollektívinu Svikaskáld sem er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Þau segja frá tilurð skáldverkanna, frá hráum og hreinum hugmyndum og hvaða leið skáldskapurinn rataði. Er sársaukafullt að skrifa skáldskap og að gefa út bók eða áreynslulaust flæði, ritúal, jafnvel ljómandi leiðsla?
Hvernig líður höfundunum á nýju ári eftir bókaflóð og hvernig hvíla þau akurinn?

 

Merking eftir Fríðu Ísberg
Útgefandi: Forlagið - Mál og menning

Skáldsagan Merking er margradda verk sem fjallar um afstöðu og pólaríseringu, fordóma og samkennd. Þjóðin er klofin í afstöðu sinni til samkenndarprófsins, byltingarkenndrar tækni sem spáð getur fyrir um andfélagslega hegðun; annar helmingurinn vill öruggara samfélag, hinn vill réttlátt samfélag. Aðalpersónur sögunnar hafa öll þurft að laga sig að nýjum siðferðisgrundvelli samfélagsins og fram undan er þjóðaratkvæðagreiðsla sem sker úr um hvort fólki verði gert skylt að gangast undir prófið. 

 

Kóperníka: skáldsaga um morð, ást og viðurstyggð eftir Sölva Björn Sigurðsson
Útgefandi: Sögur

Kaupmannahöfn 1888. Raðmorðingi gengur laus og börn hverfa unnvörpum. Kóperníkus, íslenskur unglæknir, er rekinn frá störfum og rannsakar nú lát besta vinar síns. Hann grunar fyrrverandi samstarfsfólk sitt á spítalanum um græsku en niðurstaðan virðist ekki í augsýn.

 

Dyngja eftir Sigrúnu Pálsdóttur
Útgefandi: Forlagið - JPV

Hvað leynist bak við bláan einkennisbúning og silkislæðu, sólbrúna húð og rauðlakkaðar neglur? Dauð rödd söguhetjunnar býður þér að kaupa tollfrjálsan varning og þegar þú afþakkar boðið heldur hún áfram ganginn með þennan klunnalega en vellyktandi vagn á undan sér. Hægt í átt að ljósinu og endalokum þeirrar undraverðu sögu sem nefnd hefur verið Dyngja. Hún hófst um miðbik 20. aldar á litlum bæ við rætur Ódáðahrauns og þaðan barst hún lengra inn í landið; frá hálendi Íslands út í geim og að lokum til tunglsins. 

 

Borg bróður míns eftir Kristínu Ómarsdóttur
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Um hömlur og auðmýkt, kröfur og uppgjöf, sveigjanleika, orðleysi og vanmátt og veiklunda hugrekki, sögurnar gerast meira og minna í borg - sem má þekkja og ímynda sér - inn í minnstu einingum borgar: herbergjum og eldhúsum og stofum og í fjörum og kirkjugörðum og á víðavangi. Þetta er óbeint framhald Einu sinni sagna, sem samið var af tvölfalt yngri höfundi.

 

Spjall og upplestur úr mjög áhugaverðum skáldverkum. Öll velkomin.

Sjá viðburð á Facebook.

Umsjón: Soffía Bjarnadóttir, verkefnastjóri bókmennta
soffia.bjarnadottir@reykjavik.is 

 

 

 

 

Bækur og annað efni