Vésteinn Snæbjarnarson ræðir tungumál í heimi gervigreindar
Vésteinn Snæbjarnarson ræðir tungumál í heimi gervigreindar

Um þennan viðburð

Tími
17:15 - 18:00
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir öll
Fræðsla
Kaffistundir

Vísindakaffi | Tungumál og gervigreind

Fimmtudagur 23. september 2021

Á þessu Vísindakaffi verður rætt um aðkomu gervigreindar að ýmsum tungumálarannsóknum, sem og varðveislu tungumála eins og íslenskunnar í heimi þar sem enskan verður æ fyrirferðarmeiri. 

Vésteinn Snæbjarnarson starfar við rannsóknir og þróun á gervigreind sem meðhöndlar íslenskt mál. Hann hefur meðal annars komið að gerð kerfa sem þýða texta, greina nöfn og svara spurningum ásamt því að fikta við gerð talgervils. Vésteinn er með bakkalárgráður í heimspeki og stærðfræði en hefur einbeitt sér að hugbúnaðargerð eftir útskrift, m.a. á sviði tungumálakennslu. Síðustu tvö ár hefur hann þó snúið sér alfarið að máltækni samhliða meistaranámi í tölvunarfræði og störfum sínum hjá sprotafyrirtækinu Miðeind. Hann kennir námskeið í máltækni við Háskóla Íslands haustið 2021.

Gervigreindarlausnir byggðar á djúpum tauganetum henta einstaklega vel við þróun reiknirita sem fanga fjölbreytileika mannlegs máls. Með innsýn í nútíma máltækni eykst skilningur á því hvað þessi tegund af gervigreind er fær um, hvaða kosti hún hefur, hvað ber að varast og hve mikilvæg góð gögn eru. Ýmsar spurningar vakna þó óneitanlega um hvað liggur að baki útreikningum gervigreindarinnar og hvort þeir varpi nýju ljósi á eðli þess máls og texta sem greindin er þjálfuð á.

Vísindakaffi er ný viðburðaröð sem miðast að því að ræða um vísindi á mannamáli. Fenginn er sérfræðingur á vissu sviði og hann spurður spjörunum úr, eftir stutta kynningu. Áhorfendur fá líka tækifæri til að taka þátt í umræðunum. Engin þekking á efninu nauðsynleg, aðeins áhugi. 

 

Nánari upplýsingar:
Halla Þórlaug Óskarsdóttir, verkefnastjóri
halla.thorlaug.oskarsdottir@reykjavik.is