Börn og foreldrar sitja í hring í leik

Um þennan viðburð

Tími
10:30 - 11:30
Verð
Frítt
Hópur
Börn
Aldur
0-3 ára
Börn
Tónlist

Barnamenningarhátíð | Fjöltyngd tónlistarstund fyrir krílin með Tónagulli

Þriðjudagur 18. apríl 2023

Yndisleg tónlistarstund þar sem krílin eru kynnt fyrir töfraheimum tónlistarinnar.

Ung börn eru miklar vitsmunaverur sem drekka í sig allt sem fram fer í umhverfi þeirra. Máltaka hefst löngu áður en börn byrja að tala og sömuleiðis aðlagast börn tónlist sinnar menningar ótrúlega snemma. Reynslan sýnir að tónlist höfðar gríðarlega sterkt til barna. Í gegn um tónlist gefast tækifæri til að örva þroska barna á mörgum sviðum. Tónlistariðkun í hóp er einstök upplifun fyrir barn sem er að uppgötva umhverfið og læra á veröldina í kring um sig.

Í Tónagulli er markvisst unnið með tónlist með aðferðum sem eru við hæfi þessa unga aldurs. 

Tónlistarstundin tekur um 45 mínútur og lögð er áhersla á samveru og gleði. Við byrjum á söng sem býður öll velkomin með nafni og í lokin er sunginn kveðjusöngur. Þar á milli er unnið með puttaþulur, kroppaþulur, kjöltuleiki, hreyfileiki, söngdansa, barrokkdans, hringdansa, eggjahristur, litríkar slæður, trommur og barnahljóðfæri.

Umsjón með tónlistarstundinni hefur Adam Switala en hann er tónlistarmaður, tónskáld, fyrirlesari og kennari. Hann er jafnframt doktorsnemi og aðjúnkt á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Adam notar kennsluaðferðir sem hann hefur þróað í samstarfi við Dr. Helgu Rut Guðmundsdóttur, stofnanda Tónagulls, en hún hefur sérhæft sig í tónlistarþroska barna frá fæðingu.

Þar sem Adam er frá Póllandi fer tónlistarstundin fram á þremur tungumálum; ensku, íslensku og pólsku, en aðaláherslan er auðvitað á tónlistina.

Þessi viðburður hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði og er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Barnamenningarhátíðar.

 

Mikilvægar upplýsingar:

  • Miðað er við að börnin séu frá 0-3 ára en aðaláhersla er á þau allra yngstu.
  • Best er að ekki séu fleiri en tveir fullorðnir í einu með hverju barni.
  • Stundin fer fram í salnum Miðgarði í Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal, þriðjudaginn 18. apríl kl. 10:30-11:30.
  • Stundin er alþjóðleg, tungumál er ekki hindrun.
  • Skráning er nauðsynleg, en hún fer neðar á þessari síðu. 

 

Viðburður á Facebook.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Stella Sif Jónsdóttir, sérfræðingur | viðburðir og fræðsludagskrá
stella.sif.jonsdottir@reykjavik.is