Sýningar á Borgarbókasafninu

Í menningarhúsum okkar er boðið upp á alls konar sýningar. Við vinnum jafnt með einstaklingum og hópum ýmiss konar, innlendum sem erlendum. Í gegnum tíðina höfum við sýnt allt milli himins og jarðar; málverk, gler, leir, ljósmyndir, myndasögur, textíl og þannig mætti lengi telja. Frítt er inn á allar sýningar og oft bjóðum við upp á viðburði, námskeið og smiðjur í tengslum við sýningarhaldið.

Öðru hverju bjóðum við upp á sýningar sem höfða sérstaklega til barna. Þar ber fyrst að nefna hina árlegu farandsýningu Þetta vilja börnin sjá sem hefur verið sett upp í Gerðubergi en hún gefur góða innsýn inn í útgáfu á myndskreyttum barnabókum. Sýningin ferðast öllu jöfnu víða um landið og hefur viðkomu á 5-6 stöðum yfir árið. Annað gott dæmi um lestrarhvetjandi sýningarverkefni er norræna farandsýningin Skrímslin bjóða heim sem byggir á bókum þríeykisins Áslaugar Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Sýningin var sett upp í Gerðubergi 2015, í Norðurlandahúsinu í Færeyjum 2017 og flakkar nú á milli bókasafna í Danmörku.

Myndasögusýningar eru einnig fastur liður í Grófinni auk þess sem oft eru settar upp sýningar á verkum listamanna í Artótekinu.

Hér er aðeins stiklað á stóru en við hvetjum fjölskyldur til að fylgjast vel með dagskránni.

Langar þig að fylgjast betur með?
-  Skráðu þig sem áskrifanda að Fréttabréfi Borgarbókasafnsins
-  Fylgdu okkur á Facebook síðunni okkar
-  Fylgstu með okkur á Instagram síðunni okkar

Upplýsingar til listamanna og samstarfsaðila

Við hvetjum listamenn og samstarfsaðila, jafnt lærða sem leika, til að leggja inn umsóknir hjá sýningarnefnd safnsins sem fer yfir og svarar öllum umsóknum. Sýningarnefnd áskilur sér rétt til að leggja línur og móta sýningarhald Borgarbókasafnsins út frá áherslum í viðburðadagskrá á hverjum tíma og velur úr umsóknum í samræmi við þær.

Hægt er að senda okkur umsókn í gegnum vefinn eða senda umsóknir í PDF formi á netfangið syningar@borgarbokasafn.is  

Nánari upplýsingar veitir:

Hubert Gromny, verkefnastjóri miðlunar og sýningarhalds
hubert.gromny@reykjavik.is