Hópur situr í hring og ræðir saman

Hlutverk bókasafna í nútímasamfélagi | Opið samtal

Á Torginu hittust starfsmenn ýmissa bókasafna, á meðal deildarstjóra og starfsfólks Borgarbókasafnsins voru starfmenn Bókasafns Háskólans í Reykjavík, Landsbókasafns sem og Bókasafns Hafnarfjarðar ásamt þátttakendum með sérstakan áhuga á lýðræðisþróun. Umræðuefnið var hlutverk bókasafna í nútímasamfélagi.  Við lifum á tímum stöðugra breytinga, upplýsingaóreiðu og lífið kemur okkur stöðugt á óvart. Hvaða gildi hafa bókasöfnin í okkar daglega lífi? Eru bókasöfn staðir sem eru ómissandi í lýðræðissamfélagi? Hvernig mæta þau þörfum okkar til að tengjast öðru fólki eða stuðla að frekara upplýsingalæsi? 

Bókasöfn geta tekið á sig ýmsar myndir og fjölbreytt hlutverk. Á meðan mörg fara á safnið til að fá lánaðar bækur, þá eru sífellt fleiri sem nýta sér fjölbreytta þjónustu safnanna. Á verkstæðum er hægt að búa til tónlist eða læra á nýjustu forritin. Aðrir nýta aðstöðuna og taka upp hlaðvarpsþátt í stúdíói. Enn aðrir sækja innblástur á safninu, því þar geta hlutir komið manni á óvart. Bókasöfn litast af umhverfi sínu. Almenningsbókasafn í íbúahverfi þar sem töluð eru 150 tungumál er með aðrar áherslur en háskólabókasafn sem þjónustar samfélag nema, kennara og rannsakenda. Gæðastjórnun og upplýsingalæsi eru sett í mismunandi samhengi þegar talað er við sex ára notanda á bókasafninu í Sólheimum eða 26 ára nema á háskólasafni.

 

 

Ýmsar fullyrðingar um möguleg hlutverk bókasafna voru sett í hversdagslegt samhengi og reynt að máta þau við þarfir notenda. Sem dæmi má nefna: 

Bókasöfn kenna okkur að deila > Mig langar að stuðla að sjálfbærni, þá þarf ég að læra að deila. 

Bókasöfn veita tækifæri til þátttöku í samfélaginu > Mig langar að geta komið á stað þar sem ég get gert hluti með öðrum.

Bókasöfn efla félagslega nýsköpun > Mig langar að prófa að elda saman kvöldmatinn með öðrum á bókasafninu. 

Bókasöfn tengja fólk > Mig langar að hafa aðgang að stað þar sem ég get komið og verið í kringum annað fólk, án þess að það sé einhver dagskrá eða ég þurfi að borga mig inn.  

Í raun snúast þessar spurningar að miklu leyti um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Bókasöfnin hafa mikla aðlögunarhæfni og geta mætt þeim samfélagsþörfum sem umhverfið kallar eftir. Viljum við búa í samfélagi þar sem við höfum staði sem bjóða upp á að ólíkt fólk mætist, kynnist, deili og komi hvert öðru á óvart? Góðar og spennandi umræður sköpuðust um bókasöfn sem vettvang lýðræðis og öruggs rýmis.

Í næsta opna samtali 18. janúar 2022 munum við ræða stafrænar lýðræðisgáttir og mikilvægi þess að skapa stað þar sem við mætumst. Öll velkomin að taka þátt í að ræða og þróa bókasafnið sem opið rými. 

Frekari upplýsingar um opin samtöl á Torginu veitir:
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 31. janúar, 2023 15:55