Verkstæðið Grófinni | Aðgangur að atvinnuforritum

Borgarbókasafnið býður almenningi upp á rými til skapandi starfa. Þessi rými kallast Verkstæði. Hægt er að lesa nánar um þau hér. 

Eitt Verkstæðanna er á fimmtu hæð í Grófinni og þar er lögð áhersla á tónlist og margmiðlun. Karl James Pestka er umsjónarmaður þess og svarar hér nokkrum spurningum:

 

Hvað brallar fólk á Verkstæðinu í Grófinni?

Ótrúlega margt! Í forritunum Ableton og Garageband er hægt að semja tónlist, í Logic og Reaper má klippa saman lög. Svo er hægt að varpa út streymi með OBS, vinna með ljósmyndir í Photoshop, teikna í Illustrator, klippa bíómyndir í Final Cut Pro eða Adobe Premiere, búa til teiknimynd í After Effects – við erum meira að segja með grænskjá! Í stuttu máli er hægt að bralla mjög margt á verkstæðinu.

 

Hverjir mega nota verkstæðin?

Allir! Verkstæðin bjóða upp á eitthvað fyrir alla, óháð aldri, getu og bakgrunni. Við bendum nýliðum á Fiktdaga á miðvikudögum en þar getur hver sem er, eldri en þrettán ára, labbað inn og byrjað að skapa.

 

En ef þú ert yngri en þrettán ára?  

Við viljum auðvitað kynna tólin fyrir yngri krökkum líka, en þá er mikilvægt að hafa leiðsögn. Krakkar sem orðnir eru átta ára geta þess vegna skráð sig á vinnusmiðjur sem eru haldnar á Verkstæðinu. Það þarf ekki bókasafnsskírteini til að skrá sig á Verkstæðisviðburði. 

 

Get ég pantað tíma til að vinna á tölvu eða bókað herbergið?

Já, það er hægt að panta tíma á Verkstæðunum endurgjaldslaust, en þá þarftu að hafa bókasafnsskírteini. 

 

Hvað sjáið þið fyrir ykkur í framtíð Verkstæðisins?

Við erum um þessar mundir að útbúa hljóðfærasafn svo að fólk geti spilað og tekið upp. Við höfum nú þegar fengið gefins DJ græjur fyrir Traktor og við erum á höttunum eftir fleiri græjum! Við tökum fagnandi við tækjum sem tónlistarmenn vilja gefa, ef þær eru í lagi og geta eflt starfið!

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 9. mars, 2022 15:21
Materials