Jólaálfurinn sem flutti inn
Eftir Grétu Þórsdóttur Björnsson og Halldór Snorrason

Jóladagatalið 2019

Í samstarfi við Bókmenntaborgina

Urður er sjö ára og hlakkar mikið til jólanna. Einn morguninn þegar hún fer á fætur er komin pínulítil hurð á vegginn við dyrnar inn í eldhús og litlum rauðum stígvélum hefur verið stillt snyrtilega upp fyrir framan. Foreldrar hennar spauga með að nú hljóti danskir jólaálfar að vera fluttir inn til þeirra þótt þau séu greinilega viss um að hér hafi Urður verið að föndra. En þegar einhver byrjar að hrekkja fjölskylduna all svakalega fer gamanið að kárna og foreldrarnir reiðast Urði sem þau telja að beri ábyrgð á öllum prakkarastrikunum. En Urður er blásaklaus – hvað er eiginlega að gerast? Er danskur jólaálfur í raun og veru fluttur inn heima hjá henni?

Jóladagatal Borgarbókasafnsins hefur glatt yngri notendur safnsins árum saman en nú í ár var í fyrsta sinn efnt til samkeppni um besta jóladagatalið og sigurvegarinn var Jólaálfurinn sem flutti inn eftir þau Grétu Þórsdóttur Björnsson og Halldór Snorrason. Jóladagatalið er ætlað börnum á öllum aldri og hefst 1. desember og mun einn kafli birtast á degi hverjum fram að jólum.

Hér á heimasíðu Borgarbókasafnsins verður hægt að lesa kaflana og njóta myndskreytinga en einnig hlusta á upplestur á sögunni. Jóladagatalið birtist líka á Facebook-síðunni og verður svo aðgengileg inni á hlaðvarpi safnsins eftir 24. desember.