Norður | Stafræn skáldsaga

Stafræna skáldsagan Norður eftir þau Camilla Hübbe og Rasmus Meisler er grunnur af upplifunarrými Borgarbókasafnsins sem ber heitið OKið og er staðsett í Gerðubergi. Bókin er gagnvirk og hægt er bæði að lesa hana og hlusta á íslensku, dönsku, ensku og færeysku. Bókin er opin í landsaðgangi og eina sem þarf að gera er að smella á myndina hér fyrir neðan. Þá opnast bókin ásamt leiðbeiningum en neðst í hægra horninu er farið í tannhjólið og þar er hægt að breyta um tungumál. 

Skáldsagan fjallar um unglingsstelpuna Norði sem elst upp í Danmörku ásamt móður sinni. Undarlegar breytingar eiga sér stað í umhverfinu og brátt er Norður lögð af stað í hættuför niður í Niflheim ásamt íkornanum Ratatoski með aðstoð örlaganornanna Urðar, Verðandi og Skuldar. Á meðan bruggar athafnamaðurinn Sigur launráð á hálendi Íslands og hyggst nýta sjaldgæfa steintegund til að komast út í geim. 
Höfundar bókarinnar nýta norrænan menningararf til að fjalla um samskipti manns og náttúru og undir spennandi fantasíu liggja áleitnar spurningar um stöðu okkar gagnvart jörðinni. 

Einnig er hægt að nálgast bókina í pappírsútgáfu á næsta safni, sjá neðst á síðunni.