
Information about the event
Heimsókn í hljóðverið og hlaðvarpsstúdíóið
Kynningarkvöld í hljóðverinu og hlaðvarpsstúdíóinu með Þorgrími Þorsteinssyni, sem hefur sérhæft sig í upptökum og hljóðtækni.
Lærum saman á búnaðinn og förum yfir grunnatriðin í upptökufræðum.
Markmið kvöldins er að þátttakendur geti bjargað sér upp á eigin spýtur í hljóðverinu og hlaðvarpsstúdíóinu og nýtt sér aðstöðuna til að hljóðrita og skapa að vild.
Notkun á hljóðverinu og hlaðvarpsstúdíóinu er ókeypis fyrir þau sem eiga gilt bókasafnskort.
Kynningin verður tvískipt og gestum velkomið að mæta á báða staði eða annan hvorn, eftir því sem hentar:
- kl. 19-20: Kynning á hlaðvarpsstúdíói
- kl. 20-21: Kynning á hljóðveri
Um Þorgrím:
Þorgrímur er menntaður tónlistarmaður og upptökustjóri og hefur sérhæft sig á sviði sígildrar tónlistar og jazztónlistar. Hann lauk námi við tónmeistaradeild Konunglega tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn sumarið 2020 en lauk áður prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands (2015) og burtfararprófi í jazzgítarleik frá Tónlistarskóla FÍH (2017).
Um hljóðverið:
Í hljóðverinu býðst fólki að taka upp og vinna hljóðupptökur. Aðstaðan býður upp á að hægt sé að taka upp allt frá hlaðvörpum og upp í heilar hljómsveitir og eru allar helstu græjur sem til þarf á staðnum, þar á meðal gítar, bassi, trommur, hljómborð, hljóðnemar og hljóðvinnsluforrit.
Í hljóðverinu er meðal annars að finna:
- Mac mini með Logic Pro X, Fabfilter FX bundle, Izotope Elements og Arturia Analog Lab
- Apogee Ensemble hljóðkort
- Yamaha HS7 hátalara og Yamaha HS 8S bassabox
- Beyerdynamic DT1770 PRO heyrnartól
- Behringer PolyD hljómgervill og Arturia KeyLab 88 MIDI hljómborð
- Fender Stratocaster og Fender P Bass
- Yamaha Stage Custom trommusett með Dream diskum
- Úrval af hljóðnemum. Þar á meðal RODE NT2, Sennheiser MD-421, Slate ML 2
Um hlaðvarpsstúdíóið:
Hlaðvarpsstúdíóið er staðsett í rými sem ber heitið Skemman. Þar býðst fólki að taka upp allt að þrjá viðmælendur í senn, hver með sinn hljóðnema. Hægt er að tengja síma eða önnur snjalltæki við RØDECaster Pro II upptökutækið í gegnum Bluetooth og er þá hægt að spila hljóðbrot beint af þeim tækjum. Einnig er hægt að tengja tölvu í gegnum USB-C tengi og spila hljóð af henni.
Í hlaðvarpsstúdíóinu er að finna:
- RØDECaster Pro II upptökutæki
- Þrír Shure SM58 hljóðnemar
- Þrjú heyrnartól
Í Skemmunni er einnig að finna þrífót fyrir farsíma, grænan bakgrunn fyrir upptökur og LED stúdíó ljós.
Öll velkomin - kostar ekkert - engin skráning!
Nánari upplýsingar veitir:
Stella Sif Jónsdóttir | Viðburðir
stella.sif.jonsdottir@reykjavik.is | 411 6270