Auður Haralds, rithöfundur

Bókmenntavefurinn | Auður Haralds

Kviðurinn tætist sundur í sprengingu af sársauka. Dýrið í mér gefur frá sér mótmælahljóð. Hann móðgast. Fellir nærri flöskuna, grípur hana, og hristist síðan að lyftunni. Þar kúvendir hann og skutlar mér inn í lyftuna eins og í spyrnukeppni, með léttri viðkomu á öðrum karminum. Flaskan verður eftir fyrir utan, plastslangan er ekki teygjanleg, og hún rykkir í. Ég rétt næ að skella hinni hendinni ofan á nálina í handarbaki mér áður en plástrar og æðar rifna og við málum lyftuna rauða. Þá garga ég:
    "Hefurðu ekki próf á þetta?"
   Ég er sveitt af streitu, kvölum og skelfingu. Hann er hryllilega fúll yfir vanþakklæti mínu.
   Ég er enn lifandi þegar ég kem á röntgendeildina. Það veldur þeim vonbrigðum. Því er gerð önnur tilraun til að murka úr mér tóruna.
                                                                                                                                                         Auður Haralds: Læknamafían, 1980 (bls.76-77)

Nú í september birti Bókmenntavefurinn yfirlitsgrein yfir bókmenntaverk Auðar Haralds sem ber heitið: Ástir, örlög, andóf og uppbrot – nokkur orð um bækur Auðar Haralds.

Auður er fædd í Reykjavík 11. desember árið 1947 og sló í gegn með fyrstu skáldsögu sinni Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, árið 1979. Þar deilir hún á lífskjör og aðstæður fólks, sér í lagi einstæðra mæðra. Hún fylgdi bókinni eftir með Læknamafíunni: lítil pen bók þar sem ráðist er að fjandsamlegu kerfi og hvunndagshetjan berst áfram gegn kvenfjandsamlegum viðhorfum.

Þó kaldhæðin, bersögul og ýkjukennd sagnagleði einkenni almennt frásagnarhátt Hvunndagshetjunnar þá víkur gleðin fyrir raunsærri og „kaldari“ greiningu kringumstæðna og áhrifana sem þær hafa á sálarlífið […]
                                                                                                                                                                                    Þorgeir Tryggvason, Bókmenntavefurinn

Síðan þá hefur hún sent frá sér skáldsögur, barnabækur, leikrit og unglingabók. Barnabækurnar um Elías muna eflaust margir eftir þar sem hlutverkunum er snúið við og Elías sér á spaugilegan hátt við ringulreið fullorðna fólksins sem virðist vita lítið í sinn haus. Nýjasta verk Auðar kom út á þessu ári 2022 og nefnist, Hvað er Drottinn að drolla?

Beittur húmor hefur oft verið talinn eitt sterkasta stílbragð Auðar Haralds sem höfundar og eins og bókmenntarýnir bendir á þá er einnig oft skýr erindi rekið í verkum hennar:

[...]hræsni afhjúpuð, valdakerfum ögrað, vanahugsun og klisjur fordæmdar, lestir hæddir, níðstangir reistar.
 

Það má lesa um verk Auðar Haralds á Bókmenntavefnum og að sjálfsögðu lána og lesa skáldverk hennar á Borgarbókasafninu.

Category
UpdatedFriday September 30th 2022, 13:51
Materials