Beint í efni

Krakkar með frjótt ímyndunarafl

Krakkar með frjótt ímyndunarafl
Höfundar
Ingileif Friðriksdóttir,
 María Rut Kristinsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur
Krakkar með frjótt ímyndunarafl
Höfundar
Kristín Helga Gunnarsdóttir,
 Halldór Baldursson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur
Krakkar með frjótt ímyndunarafl
Höfundar
Kristín Helga Gunnarsdóttir,
 Halldór Baldursson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Að sjá veruleika sinn speglaðan á blaðsíðum bóka er mikilvægt fyrir lítil börn. Hversdagsleikinn getur verið ævintýralegur og hlutir sem við upplifum dagsdaglega geta umbreyst í töfrandi sögur. Bækurnar þrjár sem hér verða teknar til umfjöllunar fjalla allar um venjuleg börn í hversdagslegum aðstæðum. Vinirnir Úlfur og Ylfa fara í ævintýraleiðangur í Úlfur og Ylfa: Ævintýradagurinn eftir Ingileifu Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur. Bókin er myndskreytt af Auði Ýr Elísabetardóttur. Hinar tvær bækurnar eru nýjustu bækurnar um Obbuló í Kósímó, Nammið og Myrkrið, eftir þau Dinnu og Dóra, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Halldór Baldursson.

Úlfur og Ylfa: Ævintýradagurinn fjallar um Úlf sem vaknar æsispenntur einn daginn, flýtir sér að klæða sig, borða, bursta tennur og klæða sig í skó áður en hann kveður mömmur sínar tvær og hleypur út með hundunum sínum, Bósa Ljóshár. Ástæða þess að hann er svona spenntur er í dag ætlar hann að eiga ævintýradag með Ylfu vinkonu sinni.

Börnin tvö ásamt Bósa byrja á því að fara í Hornbúðina og birgja sig upp af góðgæti til að hafa með sér í ævintýrið. Búðina reka kaupmennirnir Óli og Nonni og er hún greinilega byggð á Kjötborg sem börnunum mínum þótti verulega gaman að sjá á síðum bókarinnar enda eru þau fastakúnnar hjá kaupmönnunum á horninu. Óli og Nonni senda þau af stað með kleinur, ostaslaufur, kókómjólk og stútfullan nammipoka.

Þá hefst ævintýrið! Ímyndunaraflið knýr krakkana og þau eru allt í einu stödd í Afríku og Bósi hefur breyst í stóran sléttuúlf og þau rekast á risastórt ljón sem reynist vera venjulegur köttur. Þau byggja kofa úr greinum og teppi og borða nestið sitt. En Úlfur kann sér ekki hóf og borðar næstum allt nammið áður en Ylfa fær nokkuð. Úlfur fær illt í magann af öllu nammiátinu. Vinkona hans fyrirgefur honum græðgina og þau halda áfram niður að tjörn þar sem þau lenda í átökum við hákarla sem reynast vera lítil síli sem þau veiða í háf. Við tjörnina finna þau fullt af fallegum blómum, meðal annars gleym-mér-ei sem þau líma á peysurnar sínar svo þau gleymi hvort öðru aldrei. Að lokum kveðjast þau og Úlfur fer heim til mæðra sinna og segir þeim að hann hafi átt skemmtilegasta dag í heimi.

Sagan er einföld og hversdagsleg og atburðirnir uppfullir af sakleysi og hreinleika æskunnar, eitthvað sem allir lesendur, ungir sem aldnir, geta tengt vel við. Ímyndunarafl barnanna skín í gegnum myndir Auðar sem eru hlýlegar og bjartar. Bæði sagan og myndirnar bera með sér ákveðið tímaleysi, hlutir sem tilheyra nútímanum sjást hvergi og í raun gæti sagan gerst á hvaða tíma sem er.

Það eina sem mögulega hefði ekki sést í eldri barnabókum er fjölskylda með tveimur mæðrum en það er engin athygli dregin að þeim. Þær eru hluti af sögunni án þess að að skipti nokkru máli hvort Úlfur á mömmu og pabba, tvær mömmur eða tvo pabba. Það er mikilvægt að börn sjái ýmsar gerðir af fjölskyldum án þess að það þurfi að vekja athyglina að því. Framsetning fjölskyldunnar er því mikilvæg í hversdagsleikanum sem sagan er staðsett í. Þó að dagurinn sé skemmtilegasti dagur í heimi og algjör ævintýradagur er hann líka venjulegur og eitthvað sem öll börn tengja við.  Á tímum þar sem mikil pressa er sett á bæði börn og fullorðna að vera endalaust að gera eitthvað sérstakt er mikilvægt að minna á mikilvægi þess að staldra við og njóta hversdagsins.

***

Kristín Helga Gunnarsdóttir og Halldór Baldursson hafa átt mjög farsælt samstarf í gegnum árin og í fyrra kynntu þau nýja sögupersónu til leiks, Obbuló í Kósímó. Nú eru komnar út tvær nýjar bækur um leikskólastelpuna Oddnýju Lóu Þorvarðardóttur sem býr í Kjóamóa þrjúhundruð og sjö, en hvaða krakki getur sagt það? Enginn og þess vegna kallar hún sig Obbuló í Kósímó.

Obbuló er hress og hugmyndarík stúlka sem lætur ekki að sér hæða. Í Myrkrinu spyr hún fjölskyldumeðlimi sína og vini hvað þeir hræðist í myrkrinu. Svörin sem hún fær eru dæmigerðir hlutir sem vekja hræðslu; draugar, drekar, þjófar og sprengjur. Hún spyr spurninga og kemur með hnyttin svör við ótta þeirra. Í lok hvers samtals kallar hún viðmælendur sína fyndnum nöfnum; „pabbi kjánaprik“, „mamma ruglubudda“, „afi bullusnúður“. Þegar mamma spyr Obbuló loks hvað hún hræðist í myrkrinu kemur svarið ekki á óvart, „ekki neitt!“.

Ég elska myrkrið. Það er vinur minn. [...] Myrkrið er eins og hlýtt teppi sem svífur utan um mig alla. Það er mjúkt og það er rólegt! [...] Já og myrkrið gerir mig stóra og sterka. Þegar ég ligg í myrkrinu þá ræð ég hvað ég er stór og sterk. Og svo er góð lykt af myrkrinu og myrkrið er sætt á bragðið. (22)

Þegar hún fer að sofa biður hún pabba sinn að draga vel fyrir gluggann, loka hurðinni og slökkva ljósið frammi á gangi. Hún vill ekki að neitt trufli myrkrið sitt. Síðan teiknar hún myndir í myrkrið með fingrinum. Obbuló er stelpa sem lætur hluti sem aðrir óttast ekki koma sér úr jafnvægi, heldur sér það fallega og góða í myrkrinu.

Í sögunni Nammið er það hins vegar fúl og pirruð Obbuló sem mætir lesendum. Hún mátti ekki fá síróp út á hafragrautinn sinn og hálfbróðir hennar er á Kanaríeyjum með pöbbum sínum og hún er föst í útiveru í leikskólanum í grenjandi rigningu. Þar lendir hún í rifrildi við Emilíu skólasystur sína og til að kóróna þennan leiðinlega dag er amma hennar sein að sækja hana. Það kemur í ljós að dagurinn hennar ömmu hefur verið lítið skárri, bíllinn hennar bilaði og síminn er rafmagnslaus. Þess vegna er hún er sein að sækja Obbuló í leikskólann og getur ekki látið vita.

En þegar amma kemur loksins á síðustu stundu að sækja Obbuló veit hún alveg hvernig hún ætlar að bjarga þessum ömurlega degi. Hún fer með Obbuló í búðina og þær kaupa sér fullan innkaupapoka af sælgæti.

Hlaupormar, gelbangsar, ávaxtakaramellur, súkkulaðifroskar, bananastangir, fylltar reimar, smellir, hnappar og trítlar, sykraðir og súrir! Brjóstsykur og skallakallar, jarðaberjaslummur og súkkulaðitásur, snákar, bleikir ormar, bollur og buff. (19)

Þegar þær koma heim til ömmu „góna þær á vitleysu og háma í sig nammi. Þær góna og gúffa og glápa og gleypa.“ (21) Það endar þó ekki betur en svo að þær fá illt í magan og Obbuló gubbar regnboga af nammi. Þegar þær kveðjast ákveða þær þó að morgundagurinn skuli vera skemmtilegur.

Texti Kristínar Helgu er lifandi og skemmtilegur og hún notar fjölbreyttan og litríkan orðaforða í stuttum og einföldum setningum sem halda litlum lesendum límdum yfir lestrinum. Uppátæki Obbulóar eru oft sprenghlægileg og óvenjulegt viðhorf hennar og hnyttin umæli hitta í mark.

Myndir Halldórs eru í hans auðþekkjanlega stíl og hann nær vel að láta þær höfða til markhópsins. Atburðirnir verða ljóslifandi á blaðsíðunum og það er augljóst hvernig Obbuló sjálf ímyndar sér hluti sem sagt er frá. Þegar Obbuló ímyndar sér bróður sinn á sólarströnd á meðan hún húkir við glugga sem regndropar bylja á er skýrt hvernig henni er innanbrjósts. Myrkrið sem umlykur hana er ekki vitundarögn hræðilegt heldur nákvæmlega eins og hún lýsir því, mjúkt og hlýtt.

***

Obbuló í Kósímó og Úlfur og Ylfa eru börn sem lenda í hversdagslegum ævindýrum sem börn á leikskólaaldri tengja við. Þau eiga auðvelt með að samsama sig með sögupersónunum. Þó að það sé alltaf gaman að hverfa inn í ævintýraheima sem eru ólíkir öllu sem við þekkjum er líka svo mikilvægt að sjá sinn eigin veruleika speglaðan í skáldskap. Allar bækurnar þrjár sem hér hafa verið teknar til umfjöllunar eru hlýjar og uppfullar af æskuljóma sem gerði það að verkum að þegar ég las þær fyrir börnin mín mundi ég skýrt hvernig börn sjá heiminn, oftast á miklu frjóari og skemmtilegri hátt en hinir fullorðnu.
 

Kristín Lilja, desember 2023