Velkomin í Grófina

Það er oft líflegt hjá okkur í Grófarhúsi enda boðið upp á fjölmarga viðburði, smiðjur og sýningar. Á sama tíma er auðvelt að flýja eril miðborgarinnar, grúska á lessvæðinu og týna sér í hillunum.

Þér er velkomið að nýta aðstöðuna á bókasafninu eins og þú vilt – til að dvelja, hitta aðra eða halda viðburð. Góður safnkostur á ýmsum tungumálum í boði. Fylgjast má með fjölbreyttri viðburðadagskrá, sem kynnt er á íslensku og ensku á miðlum safnsins, allan ársins hring. Komdu og finndu þinn uppáhaldsstað á safninu!

Staðsetning 

Miðbæjarsafnið okkar er í Grófarhúsi við Tryggvagötu 15. Þar ráðum við ríkjum á 1., 2. og 5. hæð, en í húsinu er einnig Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Kynnið ykkur nánar aðgengi á staðnum.

Allt um Grófina

1.  hæð

Bókatorgið

Þegar gengið er inn í Grófarhús blasir við hið bjarta Bókatorg þar sem hægt er að sækja innblástur í nýjustu bækurnar og annað áhugavert efni sem þar er stillt út, gjarnan í tengslum við umræðuna í samfélaginu og uppákomur ýmiss konar. Bókatorgið hentar vel til viðburðahalds, s.s. fyrir móttökur, tónleika og kynningar. Stærðin er 64 fermetrar, opið, bjart og hátt til lofts. 

Artótekið

Í Artótekinu er mikið úrval listaverka eftir samtímalistamenn, sem notendur geta leigt tímabundið eða fest kaup á.  

Tölvur, skanni og prentari

Á 1. hæðinni er ókeypis aðgengi að tölvum auk þess sem hægt er að koma sér vel fyrir og lesa dagblöð, tímarit eða annað efni. Notendur geta fengið að ljósrita, prenta eða skanna gögn gegn vægu gjaldi. 

Hringrásarsafnið 

Hringrásarsafnið er samstarfsverkefni með Munasafninu / RVK Tool Library og má finna sjálfsafgreiðsluskápa á 1. hæðinni. Markmiðið er að bjóða upp á aðgengi að allskonar hlutum og smærri verkfærum. Líkt og þú færð bækur lánaðar, getur þú nú fengið hluti að láni. 

Torgið

Torgið er breytanleg aðstaða þar sem hægt er að læra, vinna saman í hópavinnu, halda fundi, tylla sér niður, kíkja í tímarit og bækur, hitta fólk og sinna sínum hugðarefnum. Hægt er að bóka Torgið til eigin afnota en viðburðir á vegum safnsins ganga fyrir í rýminu. Þegar Torgið er ekki bókað vegna viðburða er öllum velkomið að nota plássið að vild og raða húsgögnum upp eftir eigin þörfum. Notendur sjá sjálfir um að raða upp á þann hátt sem hentar og ganga frá eftir sig að notkun lokinni. Vantar þig stað til að lesa upp eða kynna nýju bókina þína? Kynntu þér Rými fyrir höfunda.

2. hæð

Skáldrit og ljóðabækur

Á annari hæð er að finna íslensk og erlend skáldrit og gott úrval ljóðabóka.

Handavinnuhornið

Þar er einnig að finna Handavinnuhornið þar sem tilvalið er að tilla sér og glugga í bækur og tímarit í leit að innblæstri að næsta handavinnuverkefni. 

Barnadeildin

Það er alltaf líf og fjör í barnadeildinni þar sem börn og fjölskyldur þeirra geta átt góðar samverustundir við lestur, leik og spilamennsku. Barnadeildin í Grófinni býður upp á bækur á fjölmörgum tungumálum,  hér má finna yfirlit þeirra tungumála sem finnast í barnadeildum safnanna. 

Hringurinn sýningarrými

Í Hringnum við barnadeildina er oft boðið upp á myndlistarsýningar og skemmtilegar útstillingar á safnkosti.

5. hæð

Myndasögudeild, kvikmyndir, tónlist og fræðibækur

Sérhannað rými fyrir unga fólkið, þar sem m.a. er að finna veglega myndasögudeild með fjölbreyttu efni. Á hæðinni er einnig gott úrval af tónlist og kvikmyndum; geisladiskum, hljómplötum, nótum, myndböndum og mynddiskum auk bóka og tímarita. Þarna er einnig að finna úrval fræðibóka þar sem grúskarar geta fundið allt milli himins og jarðar. 

Kompan hlaðvarpsstúdíó

Á fimmtu hæðinni er einnig hlaðvarpsstúdíóið Kompan þar sem hægt er að taka upp hlaðvarp sér að kostnaðarlausu.

Tónlistar- og myndvinnsluver

Í tónlistar- og myndvinnsluverinu hafa  notendur ókeypis aðgang að fjölbreyttum forritum, tækni og tólum tengdum tónlist og myndvinnslu. Í verinu eru 4 öflugar iMac tölvur sem hægt er að bóka.

Aðstaða til að læra og vinna

Á fimmtu hæðinni er gott að læra eða vinna í rólegheitum og njóta útsýnis yfir sjóinn og að Esjunni. 

Viðburðar- og sýningarhald  

Öllum er frjálst að leggja inn umsókn með tillögu að hverskonar samstarfi, viðburðahaldi, sýningum eða öðrum verkefnum. Hafðu samband og við gerum okkar besta til að svara umsóknum fljótt og vel! 

Leiðsagnir 

Hægt er að bóka leiðsagnir fyrir skólahópa og aðra hópa sem vilja kynna sér starfsemi og aðstöðu safnsins.


Bókasafnið mitt

Auk þess að bjóða upp á fjölbreyttan safnkost og blómlegt viðburðahald, býður Borgarbókasafnið upp á alls kyns aðra þjónustu sem nýtist almenningi. Kynnið ykkur hvað er í boði hér.


Hafðu samband:

Barbara Guðnadóttir er safnstjóri í Borgarbókasafninu Grófinni og staðgengill borgarbókavarðar, barbara.gudnadottir@reykjavik.is.

Borgarbókasafnið | Menningarhús Grófinni
Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík
borgarbokasafn@borgarbokasafn.is | s. 411 6100