
Samverustund í tilefni af 70 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar
Borgarbókasafnið | Menningarhús Grófinni
Mánudaginn 10. desember kl. 17:00-18:30
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna á 70 ára afmæli í ár og í tilefni þess mun Borgarbókasafn Reykjavíkur í samstarfi við Íslandsdeild Amnesty International standa fyrir samverustund í bókasafninu í Grófinni á sjálfan afmælisdaginn, þann 10. desember frá 17:00-18:30.
Mannréttindayfirlýsingin markaði tímamót á alþjóðavísu þegar hún var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember 1948. Síðan þá hefur hún verið undirstaðan í alþjóðlegum mannréttindakerfum og undanfari alþjóðlegra mannréttindasáttmála.
En það er ekki nóg að mannréttindi séu greypt í lög og alþjóðasáttmála. Öll þurfum við að þekkja réttindi okkar og skyldur sem og efla viðhorf og framkomu sem endurspeglar virðingu fyrir mannréttindum.
Komdu og vertu með okkur á þessum merkisdegi!
Dagskrá:
Til hamingju með afmælið!
- Vala Ósk Bergsveinsdóttir, fræðslustjóri Íslandsdeildar Amnesty International, fjallar um mannréttindayfirlýsinguna, mannréttindi almennt og hversu einfalt það er fyrir hvern og einn einstakling að setja lóð á vogaskálirnar í mannréttindabaráttunni.
Að hugsa sér!
- Unnur Sara Eldjárn flytur hið ódauðlega lag Imagine eftir John Lennon í íslenskri þýðingu afa síns, Þórarins Eldjárns. Einnig mun Unnur Sara flytja nokkur jólalög á frönsku.
Fjölbreytni mannréttinda og félagsleg réttindi!
-Hugleiðingar Zöhru Mesbah um mannréttindi. Zahra er frá Afganistan, starfar sem túlkur, er stofnandi Kabul ehf. og vinnur sem sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum.
Gríptu til aðgerða!
- Gestum gefst tækifæri til að taka þátt í stærsta árlega herferð Amnesty International Bréf til bjargar lífi, styðja við þolendur mannréttindabrota og þrýsta á stjórnvöld að virða mannréttindi.
Föndur og skemmtilegir mannréttindamiðaðir leikir í boði fyrir börn og fullorðna á öllum aldri!
Við mælum einnig með 70 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í Veröld kl. 9-11 sama dag.