Ljóðakaffi | Meðgönguljóð

Ljóðakaffi | Meðgönguljóð

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðurbergi
Miðvikudaginn 14. nóvember kl 20:00 – 22:00

Er það að skrifa ljóð eins og að mála með orðum? Eru ljóð tungumál tilfinninganna?  Eða eru ljóð orð undirmeðvitundarinnar? Á Ljóðakaffi í Gerðubergi heyrum við ljóðskáld lesa ljóðin sín og leitum svara við því hvað hvetur fólk til að skrifa ljóð.

Ljóðakaffi er ný viðburðaröð í Gerðubergi en þetta er í annað sinn sem við fáum til okkar ljóðskáld til að lesa ljóðin sín og ræða um þau. Í þetta sinn fáum við hóp ljóðskálda frá Meðgönguljóðum. Frá árinu 2011 hafa Meðgönguljóð tekið þátt í mikilli vakningu í íslenskum ljóðaheimi með útgáfu bóka eftir fjölda upprennandi skálda.  Síðustu ár hafa Meðgönguljóð gefið út undir merkjum Partusar.

Þeir sem lesa ljóð á kvöldinu eru: Ásdís Ingólfsdóttir, Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, Lilý Erla Adamsdóttir, María Ramos og Sigrún Ása Sigmarsdóttir.

Eftir að þær hafa lesið upp eitthvað af ljóðunum sínum fá gestir að spyrja þær út í ljóðaskrifin, innblástur og fleira.  Til dæmis hvað  þær gengu lengi með ljóðabók í maganum áður en þær gáfu út?   Og bara um hvað sem er í sambandi við ljóðin þeirra og skáldskapargyðjuna.

Ljóðakaffi er vettvangur fyrir alla að lesa upp ljóðin sín. Eftir hlé eru ljóðaáhugamenn og skáld meðal gesta hvattir til að lesa upp ljóð sem þeir hafa geymt í skúffunni eða í tölvunni. Ekki ganga of lengi með ljóð í maganum. Taktu skrefið og komdu uppúr skúffunni.

Ljóðakaffi er nýr viðburður sem verður í bland við Sagnakaffi  annan miðvikudag mánaðarins í Gerðubergi.  Jafnframt er boðið upp á handverkskaffi, heimspekikaffi, leikhúskaffi og bókakaffi á miðvikudagskvöldum í menningarhúsum Borgarbókasafnsins.

Ljóðakaffi fer fram í kaffihúsinu í Gerðubergi og geta gestir fengið sér kaffi og með því á meðan á dagskrá stendur.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Ókeypis aðgangur.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Ólöf Sverrisdóttir, verkefnastjóri

Netfang: olof.sverrisdottir [at] reykjavik.is

Sími: 411 6189 / 664 7718

Dagsetning viðburðar: 

Miðvikudagur, 14. nóvember 2018

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

20:00

Viðburður endar: 

22:00