Fuglalíf Ernu Guðmarsdóttur | 31. maí - 2. september

Álftir eftir Ernu Guðmarsdóttur

Fuglamyndir Ernu Guðmarsdóttur
​Menningarhús Kringlunni
​31. maí - 2. septmeber

Fimmtudaginn 31. maí kl. 17 opnaði sýning á verkum Ernu Guðmarsdóttur í Borgarbókasafninu Kringlunni. Í verkum hennar er efniviðurinn er sóttur í margbreytilegan og litríkan heim fuglanna. Í krummamyndunum má sjá hrafninn bera við glóandi bakgrunn, ógn sem ávallt er til staðar í landi eldsumbrota. Hrafninn er klókur og harðgerður spörfugl og er áberandi hluti af íslenskri menningu. Hrafninn hefur frá fornu haft dulræna merkingu í hugum Íslendinga enda stendur hann seigur af sér ógnir elds og ísa.

Í öðrum myndum má líta fjölbreytta fantasíufugla af öllum stærðum og gerðum; fugla sem yfirgefa jörðina og svífa um loftin blá. Þeir virðast sigla um loftin fremur en fljúga eða láta sig reka í leit að nýjum heimkynnum í ferð án fyrirheits en hvar skyldu þeir lenda?

Fuglar Ernu eru ýmist af tegundum sem við þekkjum vel eins og lóur, gæsir og tjaldar en sjálf hefur listakonan farið á hugarflug og skapað nýjar tegundir sem mæla sér mót við kirkjuglugga eða eiga fagnaðarfund á grein.

Um Ernu Guðmarsdóttur

Erna Guðmarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1940. Hún fékk áhuga á myndlist strax á unglingsaldri og stundaði fyrst listnám við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Síðar lauk hún prófi með kennsluréttindum frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands.
Erna vann lengi við leikbrúðugerð, sem myndlistakennari og leiðsögumaður en hefur undanfarin ár helgað sig myndlistinni. Hún hefur haldið einkasýningar, bæði í Reykjavík og í Stykkishólmi og tekið þátt í fjölda samsýninga. Í listsköpun sinni hefur Erna unnið með margs konar efni og tækni, svo sem silkimálun, þrykk og keramík en hefur á undanförnum árum snúið sér í auknum mæli að olíumálun.

Nánari upplýsingar:
Guðríður Sigurbjörnsdóttir
gudridur.sigurbjornsdottir [at] reykjavik.is
gsm: 6912946

 

 

 

 

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 2. september 2018

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

10:00

Viðburður endar: 

18:30