Bókakaffi | Skáldatal með Fríðu og Steinunni

Skáldatal | Steinunn og Fríða 

Borgarbókasafnið Menningarhús Kringlunni, fimmtudag 4. apríl kl. 17.30-19 

Athugið nýjan tíma og staðsetningu! Viðburðurinn var áður áformaður í Gerðubergi miðvikudag 20. mars. 

Steinunn Sigurðardóttir og Fríða Ísberg skrafa um skáldskap og lesa úr verkum sínum á Bókakaffi. Hvernig er að vera ungur rithöfundur í dag? Hvernig var það fyrir hálfri öld síðan?

Steinunn Sigurðardóttir er eitt þekktasta skáld Íslendinga. Steinunn fagnar bóklegu stórafmæli í ár, þegar liðin verða fimmtíu ár frá því að fyrsta ljóðabók hennar, Sífellur, kom út. Steinunn sendi frá sér sína tíundu ljóðabók nú fyrir jólin, Að ljóði munt þú verða. Þar áður sendi hún frá sér Af ljóði ertu komin árið 2016. Steinunn hefur sent frá sér fjölda skáldsagna, skrifað leikrit, smásögur og ævisögur. Í Tímaþjófnum, fyrstu skáldsögu Steinunnar, sem kom út árið 1986 og hlaut í kjölfarið tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, renna ljóð og prósi svo saman í hjónaband. Tímaþjófurinn og eftirminnileg söguhetja hans, kennslukonan Alda Ívarsen, lifa raunar enn góðu lífi, því Alda sást síðast á fjölum Þjóðleikhússins veturinn 2017 í túlkun Nínu Daggar Filippusdóttur. Auk Tímaþjófsins hefur skáldsaga Steinunnar, Hjartastaður, einnig hlotið tilnefningu til BókmenntaverðlaunaNorðurlandaráðs, og að auki hlaut Hjartastaður Íslensku bókmenntaverðlaunin 1995. Steinunn hefur einnig skrifað ævisögur og leikrit. Nýjasta kvenhetja hennar er Heiða Guðný Ásgeirsdóttur, náttúruverndarkona og fjárbóndi á Ljótarstöðum í Skaftártungu.  

Fríða Ísberg er með eftirtektarverðustu höfundum sinnar kynslóðar. Fyrsta ljóðabók Fríðu, Slitförin, kom út árið 2017 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, en fyrir bókina hlaut Fríða Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Smásagnasafnið Kláði var með umtöluðustu bókum jólavertíðarinnar 2018, en hún hlaut einnig tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. „Umfjöllun um mannleg tengsl og tengslaleysi liggur eins og rauður þráður í gegnum bókina auk þess sem hún endurspeglar á næman hátt þær kröfur sem nútímasamfélag gerir til fólks en ekki síður þær sem við gerum sjálf, meðvitað eða ómeðvitað, til annarra. Kláði er spriklandi ferskt skáldverk, dregið beint upp úr samtímanum,“ segir í umfjöllun dómnefndar. Fríða hefur auk þess gefið út ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd og Ég er fagnaðarsöngur ásamt ljóðakollektífinu Svikaskáldum.

Nánari upplýsingar veitir:
Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri, sunna.dis.masdottir [at] reykjavik.is, s. 699 3936

Dagsetning viðburðar: 

Fimmtudagur, 4. apríl 2019

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

17:30

Viðburður endar: 

19:00