Áfram lestur!

  • Fjolnir

Áfram lestur! er slagorð sumarlestrarátaks íþróttafélagsins Fjölnis í Grafarvogi, í samvinnu við Borgarbókasafnið, menningarhúsinu Spönginni.

Átta valinkunnir liðsmenn og -konur mæla með bókum fyrir börn, unglinga og fullorðna. Ekki spillir að lesa upphátt, börn fyrir fullorðna og fullorðnir fyrir börn!

Harry Potter eftir J. K. Rowling og Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien eru á lista íþróttafólksins, spennandi bókaflokkar sem fylgja persónum eftir og sýna hvernig þær þróast og eflast. Disney bækur henta vel þeim sem nýlega eru farnir að lesa og Disney Junior bækurnar er gaman að lesa fyrir unga ættingja og vini.

Sjálfshjálparbókin Skaraðu fram úr eftir Erik Bertrand Larsen er góð fyrir þá sem vilja ná meiri árangri í lífinu og gott er að lesa bókina um handboltakappann Loga Geirsson sem segir skemmtilega frá ferli sínum, jafnt skini sem skúrum.

Bækur Ævars vísindamanns, þar sem lesandinn ræður för, eru í uppáhaldi hjá Fjölnisfólki, einnig bókin Strákurinn í kjólnum eftir David Walliams, fyndin bók með mikilvægan boðskap.

Ásta Sigrún Friðriksdóttir mælir með Harry Potter eftir J.K. Rowling: Algjör klassík, skemmtileg saga og gaman að lesa allar af því þú sérð breytingar á persónunum.

Þórður Ingason mælir með Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien: Spennandi bækur sem henta vel fyrir t.d. efri stig grunnskóla. 

Íris Ósk Valmundsdóttir mælir með Henrí og hetjunum eftir Þorgrím Þráinsson: Ég mæli með þessari bók því hún er spennandi og sýnir að allir þeir sem hafa nógu sterka trú á drauma sína fá þá uppfyllta. 

Kristjana Ýr Þráinsdóttir mælir með Disney bókum og bókum Ævars vísindamanns: Las Disney bækur mikið þegar ég var yngri. Þægilegar að lesa og skemmtilegar. Fyrir eldri kynslóðina mæli ég með bókum eftir Ævar vísindamann, þær eru þrjár. Ástæðan er að þú getur ráðið hvernig endirinn er og því er hægt að lesa þær aftur og aftur. 

Rúna Sif Stefánsdóttir mælir með Disney Junior bókunum: Þær eru fyrir unga krakka og hafa að geyma flottar og litríkar myndir og textinn er þægilegur. 

Bergsveinn Ólafsson mælir með bókinni Skaraðu fram úr eftir Erik Bertrand Larssen: Hún er einföld, áhugaverð og hagnýt bók fyrir alla sem vilja ná meiri árangri í lífinu. 

Birnir Snær Ingason mælir með bók Loga Geirssonar, 10.10.10: Því hún er skemmtileg í lestri og góð að lesa fyrir svefn. Lesturinn lengir lífið. Ræktar hug og sál og bætir líðan. Áfram lestur!

Almarr Ormarsson mælir með Stráknum í kjólnum eftir David Walliams: Drepfyndin bók sem geymir líka mikilvægan boðskap. Allir ættu að lesa bækur Walliams. 

Áfram lestur!

.