Utan þjónustusvæðis | Stendur til 14.1.

Verks Kristbergs Péturssonar

Sýning á verkum Kristbergs Péturssonar

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
25. nóvember 2017 - 14. janúar 2018

Á sýningunni verða ný verk unnin á liðnum mánuðum í ýmsa miðla. Það eru olíumálverk, vatnslitamyndir, grafíkmyndir, teikningar og þrívíð verk sem eru sérstaklega unnin fyrir þessa sýningu.

Þessi verk eru unnin í framhaldi af verkunum  sem sýnd voru í Hafnarborg 2016. Sú sýning samanstóð af olíumálverkum, vatnslitamyndum og ljóðum. Aðspurður um verk sín segir Kristbergur að nú sé farið að örla á textabrotum og orðum sem gægjast fram úr abstrakt myndmálinu á myndfletinum. Verkin samanstandi því af skrift og teikningu og hafi þróast smám saman frá því að vera drög að ljóðum yfir í myndverk. Í olíumálverkunum teflir hann saman tveimur gjörólíkum nálgunum; annarsvegar mörgum umferðum af málningu og svo hinni hröðu aðferð skriftarinnar. Olíuverkin eru sem fyrr byggð upp af mörgum lögum sem oft eru pússuð niður í tilraun hans til að skilja eftir spor fyrri tíðar áður en nýjum lögum er bætt við. Svipaðrar tihneigingar í vinnuaðferð gætir einnig í öðrum verkum á sýningunni.

Kristbergur útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið
1983 og á árunum 1985-1988 stundaði hann nám við Ríkisakademíuna í Amsterdam. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Kristbergur kenndi við MHÍ á árunum 1989-2000 og hefur haldið fjölmörg námskeið í teikningu og málun. 

Verk eftir hann eru í eigu opinberra listasafna og hann hefur fjórum sinnum hlotið starfslaun listamnanna. Hann er meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og í nýjasta tölublaði Störu, rits SÍM, er viðtal við hann auk þess sem verk hans prýða forsíðuna. Kristbergur hlaut styrk úr Myndlistarsjóði vegna þessarar sýningar.

Sýningin er opin virka daga frá kl. 8-18 og um helgar frá kl. 13-16.

Nánari upplýsingar veitir:
Ninna Margrét Þórarinsdóttir
ninna.margret.thorarinsdottir [at] reykjavik.is
Sími: 411 6100

 

 

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 14. janúar 2018

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

08:00

Viðburður endar: 

18:00