Ummyndanir | 24.2.-21.3.

Ummyndanir, Guðmundur W. Vilhjálmsson, Borgarbókasafnið, Reykjavik City Library, Veröld sem var

Guðmundur W. Vilhjálmsson sýnir ljósmyndir

Borgarbókasafnið  | Menningarhús Spönginni
24. febrúar - 21. mars 2018

„Maður lifir svo lengi sem hann lærir!“ eru einkunnarorð Guðmundar W. Vilhjálmssonar (f. 1928), en Guðmundur er stöðugt að bæta við sig nýrri þekkingu. Myndirnar á sýningunni eru allar unnar í tölvu og á Photoshop, sem hann tileinkaði sér fyrir nokkrum árum. "Ég vinn þannig að ég afrita gamla litmynd mína, jafnvel rúmlega hálfrar aldar gamla, og leik mér að litum í þessu afriti, sem á skjánum er bæði sem „palletta“ og strigi. Öll meðferð er frjáls og ný mynd myndast, sem er í engu lík frummyndinni, nema að því leyti að litir afritsins eru notaðir. Frummyndin er hráefni en ný mynd er sköpuð."  

Tónar, litir og form leituðu snemma á hug Guðmundar, hann sótti tónleika af kappi og safnaði hljómplötum, fyrst 78 snúninga, síðar LP-plötum og loks hljómdiskum. Guðmundur var einn af stofnendum Kammermúsíkklúbbsins árið 1957, en sú stofnun lifir enn góðu lífi. Myndlistin varð honum einnig mjög hugleikin, hann segir hana hafa leitað á sömu heilastöðvar í höfði sér sem tónlistin, hvor tveggja listin hefur orðið honum til mikillar blessunar.

Fyrsta sýningin sem Guðmundur átti aðild að var ljósmyndasýning, en hann var í hópi áhugaljósmyndara sem kölluðu sig Litla ljósmyndaklúbbinn. Guðmundur og þrír aðrir félagar klúbbsins héldu sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1961 á stórum svart-hvítum abstrakt-myndum, sem vöktu mikla athygli. Með tilkomu 35 mm Kodachrome-filmunnar hófst ævintýri, segir Guðmundur: „Við hjónin vorum í hópi sem ferðaðist um óbyggðir Íslands, stundum í slagtogi með öðlingnum Guðmundi Jónassyni. Sumarið 1962 sváfum við í tjaldi á öræfum í 30 nætur, en aðrir ferðalangar voru þá sjaldséðir á þeim slóðum. Þetta var ógleymanlegt ævintýri og endlaus tækifæri fyrir ljósmyndara. Safn mynda minna úr þessum ferðum er stórt.

Guðmundur er fæddur í Edinborg og bjó þar fyrstu tvö ár ævi sinnar, en þá flutti fjölskyldan til Íslands. Hann er lögfræðingur að mennt og starfaði erlendis um skeið, í New York, Kaupmannahöfn, Hamborg og Antwerpen. Lengst af starfsævinnar vann hann á Íslandi, hjá Eimskip og Loftleiðum, síðar Flugleiðum. Á þeim vinnustað gáfust Guðmundi tækifæri til að sækja námskeið hjá ýmsum myndlistarmönnum, m.a. Jóhannesi Geir og Valtý Péturssyni. Eftir síðustu aldamót fór hann á námskeið og lærði að nota ummyndunarkerfið Photoshop og heillaðist af skapandi möguleikum þess. Myndir unnar með þeirri aðferð eru nú til sýnis í Spönginni, en árið 2013 sýndi hann slíkar myndir í sal Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ. Áður hafði hann sýnt vatnslitamyndir og pastelmyndir á ýmsum stöðum í Reykjavík.

Myndin hér að ofan er eftir Guðmund, hann kallar hana Veröld sem var. "Mér kom í hug frásögn Stefan Zweig um þann frið sem ríkti lengi í Evrópu fyrir fyrri heimsstyrjöldina sem hófst 1914. Slíkt ástand hefur ekki ríkt í Evrópu síðan."

Sýningin stendur yfir til 21. mars 2018, verið öll velkomin á opnun laugardaginn 24. febrúar kl. 14!

Nánari upplýsingar veitir:
Sigríður Stephensen, sigridur.steinunn.stephensen [at] reykjavik.is

 

Dagsetning viðburðar: 

Laugardagur, 24. febrúar 2018

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

14:00

Viðburður endar: 

15:30