Um safnið

Borgarbókasafnið var opnað í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, þann 8. september 2000. Safnið er þar í sambýli við Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Í næsta húsi, Hafnarhúsinu, er Listasafn Reykjavíkur. Safnið er 2.894 fm að stærð  og sameiginlegt svæði með Ljósmyndasafni og Borgarskjalasafni er 975 fm.

Bókasafnið er á fyrstu, annarri og fimmtu hæð Grófarhúss. Þar er góð aðstaða til þess að lesa og leita sér upplýsinga og afþreyingar. Á safninu er einnig fjöldi tölva ætlaður gestum og heitir reitir.

adalsafn_01.png

1. hæð

Afgreiðsla safnsins og sjálfsafgreiðsluvélar eru á fyrstu hæðinni. Þar er einnig upplýsingaþjónusta fyrir stuttar fyrirspurnir.

Artótekið er á 1. hæðinni en þar er hægt að leigja eða kaupa listaverk eftir samtímalistamenn.

Á Reykjavíkurtorgi er tilvalið að njóta sýninga á verkum listamanna Artóteksins og annarra og setjast niður og lesa dagblöð, tímarit eða bækur yfir kaffibolla. Á Reykjavíkurtorgi eru einnig haldnir tónleikar af ýmsu tagi og þar fara jafnframt fram fyrirlestrar og kynningar. Nánari upplýsingar um viðburðahald á Reykjavíkurtorgi veitir viðburðadeild Borgarbókasafnsins.

2. hæð

Íslensk og erlend skáldrit og hljóðbækur eru á annrri hæð safnsins og þar eru einnig veittar upplýsingar um skáldverk.

Barnadeild safnsins er á annarri hæð. Þar er hægt að lesa, skoða, spila og spjalla auk þess sem þar er sérhannað pláss fyrir yngstu gesti safnsins. Frá september fram í maí er boðið upp á dagskrá fyrir börn á sunnudögum kl. 15.00. Hægt er að panta sögustundir og safnkynningar fyrir hópa í barnadeildinni.

Á annarri hæð er góð aðstaða fyrir ungt fólk. Þar eru m.a. teiknimyndasögur í úrvali, bæði á íslensku og erlendum málum, tímarit og bókakostur sem höfðar til ungs fólks. Á sumrin stendur safnið fyrir ritsmiðjum þar sem ungu fólki er leiðbeint við að skrifa og yrkja.

5. hæð

Fræðibækur, fræðitímarit og -gögn eru á fimmtu hæðinni og þar er jafnframt aðalupplýsingaþjónusta safnsins. Aðgangur er að tölvum og prentara.

Tón- og mynddeild er einnig á fimmtu hæð. Þar eru geisladiskar, hljómplötur, nótur, myndbönd og mynddiskar auk bóka og tímarita um tónlist og kvikmyndir. Síðast en ekki síst eru þar handbækur um efnið sem hægt er að nota á staðnum. Einnig er ágæt aðstaða til að hlýða á tónlist í safninu.

Fyrirlestra- og sýningarsalur er á sjöttu hæð. Söfnin í Grófarhúsi nýta hann í sameiningu.