Skugginn okkar í Kenía

Skugginn okkar í Kenía

Skugginn okkar í Kenía
Borgarbókasafnið | Menningarhús Kringlunni
Miðvikudaginn 15. nóvember kl. 17:00 - 18:30

Helga Arnalds og fjölskylda hennar ákváðu að fara í ferðalag í haustfríinu. Þau stóðu á tímamótum og ákváðu því að gera eitthvað skemmtilegt. Eitthvað nýtt  og spennandi, eitthvað sem þau höfðu ekki gert áður, eitthvað eftirminnilegt og eitthvað sem víkkaði sjóndeildarhringinn.

Afríka varð fyrir valinu. Nánar tiltekið Kenía þar sem vinkona þeirra, Þórunn Helgadóttir, rekur skóla fyrir fátæk börn. Þau heimsóttu skólana og heimili barnanna. En þau langaði líka að skilja eitthvað eftir og gefa eitthvað af sér. Eitthvað sem gæti nýst þeim og kannski víkkaði þeirra sjóndeildarhring. Þau héldu sex námskeið í skuggaleikhúsi og skildu svo eftir græjurnar svo nemendur og kennarar skólans gætu haldið áfram að dansa, syngja og segja sögur með skuggum.

Úlfur, sem er 14 ára og mikill áhugamaður um kvikmyndalist, tók upp alla ferðina. Í sameiningu hefur fjölskyldan nú klippt saman um 20 mínútna langa heimildarmynd um ferðina og starfsemi Þórunnar Helgadóttur. 

Eftir sýningu myndarinnar verður hægt að spjalla við Helgu Arnalds, Úlf Arnalds og Þórunni Helgadóttur.

​Harvest skólarnir

Skólarnir í Kenía ganga undir nafninu Harvest skólarnir. Þeir eru staðsettir í Nairobi og í Loitoktok sem er í Masaailandi við rætur Kilimanjaro. Í  Nairobi er skólinn staðsettur í hverfinu Kariobangi sem stendur á mörkum nokkurra fátækrarhverfa. Í skólanum eru nú um 230 börn frá 3ja til 16 ára gömul.  Nemendurnir koma frá allra fátækustu fjölskyldunum og voru valin inní skólann vegna þess að fjölskyldur þeirra gátu ekki séð fyrir þeim eða boðið þeim uppá skólagöngu. Öll börnin fá hádegismat í skólanum en þar að auki eru um 80 börn í heimavist, búa í skólanum og fá þar morgun- og kvöldmat.

Í Loitoktok, sem er við rætur Kilimanjaro, býr að mestu leiti fólk úr Masaai ættflokkinum sem eru upprunalega hirðingjar en þó hefur flutt þangað fólk úr öðrum ættflokkum. Miklir þurrkar sérstalega á árunum 2009 og 2010 höfðu alvarlegar afleiðingar og drápu stóran hluta búfénaðar þeirra. Af þessum sökum er óvenju mikil fátækt á svæðinu og mikil nauðsyn á hjálp og menntun.  Þar að auki tíðkast nauðungarhjónabönd og umskurður barnungra stúlkna meðal Masaaifólks. Skólinn hefur unnið að því að sporna við þessari hefð síðan 2011 og setur það sem skilyrði að umskurður stúlkna sé ekki leyfður og börnin frædd um skaðsemi þessa verknaðs.

Í Harvest skólanum í Loitoktok eru um 150 nemendur á aldrinum 15 til 20 ára. Allir nemendurnir eru í heimavist og koma ýmist úr Harwest skólanum í Nairobi  eða úr öðrum skólum á svæðinu. Námskráin er í samræmi við almenna námskrá í skólum Kenía og taka nemendur samræmd próf eftir fjögurra ára skólavist. 

Dagsetning viðburðar: 

Miðvikudagur, 15. nóvember 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

17:00

Viðburður endar: 

18:30