Skrímslin bjóða heim í Norðurlandahúsið í Færeyjum

  • Högni Sigurþórsson sýningarhönnuður og Áslaug Jónsdóttir sýningarstjóri | Skrímslin bjóða heim

Farandsýningin Skrímslin bjóða heim verður opnuð á Barnamenningarhátíð í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum 1. apríl n.k. Áslaug Jónsdóttir, sýningarstjóri og Högni Sigurþórsson sýningarhönnuður vinna nú að uppsetningu sýningarinnar í anddyri hússins auk þess sem boðið verður upp á dagskrá í tengslum við sýninguna í svokallaðri Dansistofu. Sýningin vakti mikla lukku gesta af yngri kynslóðinni og sló öll aðsóknarmet en sem dæmi um það má nefna að 2000 manns lögðu leið sína í Gerðuberg þegar sýningin var opnuð í október 2015. Skrímslasýningin er sérstaklega hugsuð sem tækifæri fyrir fjölskyldur að eiga notalega stund saman, blaða í bók, leysa þrautir og kynnast betur Litla skrímslinu og Stóra skrímslinu sem fyrir löngu eru orðin góðkunningjar lesandi barna. Sýningin byggir á minnum úr bókunum, og þemu bókanna um tilfinningar og samskipti koma víða fram á sýningunni. Leikgleðin er í fyrirrúmi þar sem börn fá að kanna skrímslaheiminn á sínum forsendum og máta hin ýmsu hlutverk og aðstæður. Við vonum að börn og fjölskyldur í Færeyjum leggi leið sína í Norðurlandahúsið til að njóta þess sem sýningin býður upp á.

Við höfum frétt að höfundar bókanna, Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler hafi hugsað sér að nota tækifærið og hittast í Færeyjum til að leggja lokahönd á næstu bók sína um Litla skrímslið og Stóra skrímslið svo aðdáendur bókanna geta byrjað að hlakka til haustsins.

Nánari upplýsingar um Barnamenningarhátíð Norðurlandahússins er að finna á vefsíðunni www.nlh.fo.