Saumahornið

  • saumahornid

Saumaverkstæði í menningarhúsi Árbæ

Þriðjudaginn 9. október 2018 var Saumahornið opnað í Borgarbókasafninu, menningarhúsi Árbæ. Borgarbóksafnið leggur áherslu á læsi og skapandi hugsun í víðum skilningi og eru áherslur mismunandi á milli safna þess. Í Árbænum er áhersla lögð á handverk og saumaskap, í Gerðubergi er tilraunaverkstæði þar sem hægt er að læra um tækni og forritun og í Grófinni má finna Kompuna, lítið hljóðver tileinkað hlaðvarpsupptökum.

Í Saumahorninu má finna þrjár glænýjar saumavélar og aðstöðu til að taka upp snið. Þar geta gestir því saumað frá grunni en einnig er tilvalið að koma með flíkur og annað sem þarfnast viðgerðar.

Borgarbókasafnið vonast til þess að gestir taki þessari nýju aðstöðu fagnandi og verði duglegir að nýta sér hana! Miðað er við að þeir sem nota saumavélarnar séu að mestu sjálfbjarga þar sem ekki verður sérstök aðstoð við saumaskapinn.

Árpokinn

Borgarbókasafnið tekur þátt í verkefninu „Árpokinn“ sem er samstarf milli Kvenfélags Árbæjarsóknar, Þjónustumiðstöðvarinnar, Félagsmiðstöðvarinnar 105 og bókasafnsins í hverfinu. Verkefnið snýst um að sauma innkaupapoka sem verða gefnir s.s. á bókasafninu, í sundlauginni og  öðrum stöðum þar sem not eru fyrir þá. Snið og efni verða til taks á safninu sem hægt er að nota við pokagerðina. Svipuð verkefni hafa verið í gangi víða um land þar sem fólk hittist og saumar poka undir merkjum Boomerang Bags.

Nánari upplýsingar veitir:
Katrín Guðmundsdóttir
katrin.gudmundsdottir [at] reykjavik.is
411 6250