Ratleikir og kynningar

Kennurum og öðrum er velkomið að panta kynningu og ratleik á safninu fyrir hópa sem gætu haft gagn og gaman af slíkri heimsókn. Kynningin nýtist t.d. vel nemendum sem eru að læra íslensku sem annað tungumál sem og nemendum sem eru að þjálfa sitt eigið móðurmál.

Til að undirbúa heimsóknina og æfa þau orð sem notuð eru á bókasafninu býðst ykkur að nota kynningarglærurnar hér að neðan.

Ef áhugi er á kynningu og heimsókn á Borgarbókasafnið er hægt að hafa samband við Hólmfríði Gunnlaugsdóttur í Borgarbókasafninu Grófinni, holmfridur.gunnlaugsdottir [at] reykjavik.is, s. 411 6100 eða Sólveigu Arngrímsdóttur í Borgarbókasafninu Gerðubergi, solveig.arngrimsdottir [at] reykjavik.is, s. 411 6170.

Á bókasöfnum gefst mjög gott tækifæri til að koma auga á það sem er líkt í annars ólíkum menningarheimum og einnig að skapa grundvöll fyrir jákvæða sýn á það sem er ólíkt og hvernig það getur auðgað heim okkar allra. Almenningsbókasöfn eru öllum opin og öllum er velkomið að njóta þess sem þau hafa upp á að bjóða. Gestir geta fengið tónlist, bækur og annað efni að láni frá öllum heimshornum, eða notið þess á staðnum, lesið fréttir frá sínu upprunalandi á netinu, kíkt í dagblöðin sem liggja frammi, leitað að uppáhaldshöfundinum sínum og sest niður í næsta stól eða sófa, hvort sem er einir með sjálfum sér eða með öðrum. Jafnframt er býðst gestum að sækja sýningar og viðburði af ýmsum toga. Bókasafnið er einstök gátt að samfélaginu.

Umsögn frá kennara í Mími símenntun

Langaði bara að segja ykkur frá heimsókninni á Borgarbókasafnið sem var alveg frábær í alla staði. Kynningin var mjög góð og tóku starfsmenn bókasafnsins einstaklega vel á móti okkur. Fyrst kynntu þær safnið og starfsemina þar og vöktu sérstaka athygli á starfseminni t.d. kaffifundum fyrir konur af erlendu bergi brotnar (fyrsta sunnudag í hverjum mánuði), barnastarfinu o.fl. Svo var farið í ratleik sem var einfaldur en mjög vel upp settur, því nemendur lærðu vel á safnið með því að taka þátt í leiknum - bæði íslenskt og erlent efni.

Allir voru mjög áhugasamir og hreinlega uppnumdir yfir safninu og möguleikum þess. Ekki var gleðin minni þegar þau fengu öll gefins árskort í safnið (nokkrir voru þegar búnir að ákveða að kaupa sér kort áður en það kom í ljós). [...] Held að þessi heimsókn verði til þess að hluti hópsins, a.m.k., komi til með að nýta sér safnið í framtíðinni og styðji þannig við íslenskunámið og hjálpi til við aðlögun að samfélaginu.

Ég mæli því eindregið með verkefninu, legg til að það verði notað fyrir fleiri námshópa t.d. þá sem eru lengra komnir í íslenskunáminu. Í heildina var heimsóknin bæði skemmtileg, fræðandi og gagnleg og Borgarbókasafnið á hrós skilið fyrir verkefnið.

  • Ratleikur í Borgarbókasafni
  • Ratleikur í Borgarbókasafni