Myndasögusamkeppnin 2014

Borgarbókasafn Reykjavíkur og Myndlistaskólinn í Reykjavík í samstarfi við Nexus og Eddu útgáfu standa fyrir myndasögusamkeppni og -sýningu fyrir fólk á aldrinum 10-20+ ára.

Sýningin verður í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15. Hún opnar laugardaginn 1. mars, kl. 15.00 og stendur út mánuðinn. Þetta er í sjötta sinn sem samkeppnin / sýningin er haldin og nú verður tekin upp sú nýbreytni að keppt verður í tveimur aldurshópum: 10-15, 16-20+.

Eins og tíðkast hefur er samkeppnin helguð tiltekinni myndasöguhetju en árið 2014 eru liðin áttatíu ár síðan myndasöguhetjan ástkæra, Andrés önd, steig fyrst fram á sjónarsviðið. Þema keppninnar er því „Andrés önd og félagar“.

Dómnefnd skipa Signý Kolbeinsdóttir hönnuður, Sirrý (Margrét Lárusdóttir) myndasöguhöfundur og Björn Unnar Valsson bókmenntafræðingur. Miðað er við að hámarkslengd efnis sé 2 A4 blöð eða ein síða í A3 (öðru megin) og eru þátttakendur beðnir að nota frekar þykkan pappír en ekki venjuleg fjölritunarblöð til að tryggja að verkin verði fyrir sem minnstu hnjaski í upphengingu. Vinnuaðferðin er algerlega frjáls og verkin geta hvort sem er verið myndasaga eða stök mynd með myndasöguþema og / eða sem tengist myndasögum á einhvern hátt.

Þátttakendur eru beðnir að skila verkunum á Borgarbókasafnið, aðalsafn, Tryggvagötu 15, í umbúðum merktum: „Andrés önd og félagar 2014“. Síðasti skiladagur er 17. febrúar.

Vinsamlega athugið að láta fylgja fullt nafn, fæðingarár, símanúmer og tölvupóstfang. Nánari upplýsingar um samkeppnina / sýninguna verða settar á vef Borgarbókasafnsins þegar nær dregur, sjá borgarbokasafn.is.

Upplýsingar veita Björn Unnar Valsson, bjorn.unnar.valsson [at] reykjavik.is og Úlfhildur Dagsdóttir, ulfhildur.dagsdottir [at] reykjavik.is, eða í síma 4116100.