Myndasögusamkeppni 2015

Draumar - Nemo litli

Borgarbókasafnið og Myndlistaskólinn í Reykjavík í samstarfi við Nexus standa fyrir myndasögusamkeppni og -sýningu fyrir fólk á aldrinum 10-20+ ára.

Sýningin verður í Borgarbókasafninu Grófinni, Tryggvagötu 15. Hún verður opnuð sunnudaginn 3. maí, kl. 15.00 og stendur út maímánuð. Við opnun sýningarinnar verða úrslit samkeppninnar tilkynnt og verðlaun afhent við hátíðlega athöfn.

Þetta er í sjöunda sinn sem samkeppnin / sýningin er haldin og keppt er í tveimur aldurshópum: yngri og eldri.

Eins og tíðkast hefur er samkeppnin helguð tiltekinni myndasöguhetju og -þema. Að þessu sinni verður litið aftur til grárrar forneskju, en árið 2015 eru liðin hundrað og tíu ár síðan ein af fyrstu vinsælu persónum myndasagnanna leit dagsins ljós, litli drengurinn Nemo eftir Winsor McCay. Nemo litli ferðast um ævintýraheima á nóttunni, í draumum sínum og því er þemað að þessu sinni „Draumar“.

Dómnefnd skipa Signý Kolbeinsdóttir hönnuður, Sirrý (Margrét Lárusdóttir) myndasöguhöfundur og Björn Unnar Valsson bókmenntafræðingur.

Miðað er við að hámarkslengd efnis sé tvö A4 blöð eða ein síða í A3 (öðru megin) og eru þátttakendur beðnir um að nota frekar þykkan pappír en ekki venjuleg fjölritunarblöð til að tryggja að verkin verði fyrir sem minnstu hnjaski í upphengingu. Vinnuaðferðin er algerlega frjáls og verkin geta hvort sem er verið myndasaga eða stök mynd með myndasöguþema eða mynd sem tengist myndasögum á einhvern hátt.

Þátttakendur skili verkunum á Borgarbókasafnið Grófinni, Tryggvagötu 15, í umbúðum merktum: „Draumar 2015“. Síðasti skiladagur er 17. apríl 2015. Vinsamlega athugið að láta fylgja fullt nafn, fæðingarár, símanúmer og tölvupóstfang.

Upplýsingar veita Björn Unnar Valsson, bjorn.unnar.valsson [at] reykjavik.is og Úlfhildur Dagsdóttir, ulfhildur.dagsdottir [at] reykjavik.is. Einnig má hringja í síma 4116100.