Myndasögusýning | (gisp!)

Gisp! Myndasögusýning í myndasögudeild, Borgarbókasafnið Menningarhús Grófinni

Sýningaropnun | (gisp!)

Menningarhús Grófinni, 7. apríl - 27. ágúst 

Listamannahópurinn (gisp!) sýnir úrval nýjustu myndasagna (gisp!) auk einhverra gullmola úr fortíðinni í myndasögudeild Borgarbókasafnsins í Grófinni, 2. hæð Hópurinn (gisp!) er hópur fjögurra listamanna sem hreiðrað hefur um sig á mörkum myndasögunnar og myndlistarinnar. Í hartnær þrjátíu ár hafa hafa Bjarni Hinriksson, Halldór Baldursson, Jóhann Ludwig Torfason og Þorri Hringsson sinnt myndasögunni með útgáfu, sýningum og kennslu.

Fyrsta tölublað myndasögublaðsins (gisp!) kom út árið 1990. Fljótlega varð félögunum fjórum ljóst að þeir voru líklega of listrænir fyrir myndasöguheiminn og of myndasögulegir fyrir listheiminn. Þeir helltu sér því án nokkurra málamiðlana út í myndasöguhafsjó tilraunastarfsemi og persónulegrar tjáningar með sterkum skírskotunum í sögu og hefð myndasögunnar. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og íslenska myndasöguflóran styrkst og dafnað. Á næstunni kemur út tólfta tölublað (gisp!) þar sem miðaldra gisparar halda áfram ferð sinni um lendur skringilegra og eilítið sjálfhverfra sagnaheima.

Bjarni Hinriksson er fæddur árið 1963 og stundaði nám í myndasögugerð við École régionale des beaux-arts í Angoulême í Frakklandi 1985-89. Auk þess að gera myndasögur er hann fréttagrafíker og kennari.

Halldór Baldursson er fæddur árið 1965 og stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985-89. Auk þess að gera myndasögur er hann skopmyndateiknari, myndskreytir og kennari.

Jóhann Ludwig Torfason er fæddur árið 1965 og stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985-90. Auk þess að gera myndasögur er hann myndlistarmaður og kennari.

Þorri Hringsson er fæddur árið 1966 og stundaði nám í myndlist 1984-1991 við Myndlistarskólann í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í Jan Van Eyck Akademie í Maastricht. Auk þess að gera myndasögur er hann myndlistarmaður og kennari.

Sýningarrýmið í myndasögudeild Borgarbókasafnsins í Grófinni er óhefðbundið og markmið sýninga þar er að vekja athygli á íslenskum myndasöguhöfundum og verkum þeirra. Að auki er hið hefðbundna bókasafnsrými myndasögudeildarinnar gert meira lifandi með því að hafa þar reglulegar myndasögusýningar.

Umsjón:

Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri, sunna.dis.masdottir [at] reykjavik.is, s. 411 6109 

 

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 27. ágúst 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

16:00

Viðburður endar: 

17:00