Menningarmót - fljúgandi teppi

Menningarmót - fljúgandi teppi er þverfagleg kennsluaðferð sem er hugsuð til þess að varpa ljósi á mismunandi menningarheima nemenda.

Á menningarmótum fá nemendur, foreldrar og starfsfólk tækifæri til að hittast og kynna sína persónulegu menningu, sem tengist ekki endilega þjóðarmenningu, og það sem skiptir mestu máli fyrir hvern og einn, í hvetjandi umhverfi. Allir eru þátttakendur og áhorfendur um leið.

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SKOÐA MENNINGARMÓTSVEFINN - www.menningarmot.is.

Hægt er að panta kynningu á menningarmótsverkefninu og ef óskað er þá er verkefnastjórinn tilbúinn til að leiðbeina og taka þátt í framkvæmd mótsins. Kristín R. Vilhjálmsdóttir, sem er kennari og verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafni, hefur þróað og notað menningarmótin með góðum árangri í kennslu bæði í Danmörku og á Íslandi.

Viðurkenningar

2010 og 2015: Tilneft til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins í flokknum "Atlaga gegn fordómum".

2017: Verkefnið hlaut Evrópumerkið 2017 (e. European Language Label)

Myndband um menningarmót og mikilvægi móðurmáls sem gert var í tilefni Alþjóðalegs dags móðurmáls 21. febrúar 2014

Markmið menningarmóta:

  • Að skapa hvetjandi umhverfi þar sem nemendur, foreldrar og starfsfólk geta hist og kynnst menningu hvers annars.
  • Að stuðla að gagnkvæmri virðingu og skilningi.
  • Að skapa vettvang þar sem við getum undrast og hrifist af því sem er líkt og ólíkt í menningu okkar.
  • Að allir mætist í tónlist, dansi, myndlist, bókmenntum, kvikmyndum, matargerð, ævintýrum og goðsögnum, frásagnarlist, leiklist, leik og hreyfingu.
  • Að nemendur veiti öðrum hlutdeild í því stolti og þeirri gleði sem fylgir því að miðla eigin menningu á skapandi hátt.
  • Að einstaklingar verði meðvitaðir um gildi eigin menningar og mikilvægi þess fyrir mótun sjálfsmyndar við að veita öðrum innsýn í sinn heim.
  • Að þátttakendur geri sér ljóst að fjölbreytileiki og ólík tungumál mynda menningarlegt litróf í samfélaginu sem opnar augu okkar gagnvart heiminum.

Hér má sjá myndir og myndskeið frá menningarmótum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og hér má lesa umsagnir kennara og skólastjóra um menningarmótin sem haldin hafa verið í skólum þeirra.

Menningarmót í tungumálakennslu

Besta leið til að tileinka sér nýtt tungumál er þegar málið tengist einhverju sem snertir mann og sem nýtist  strax í samskiptum. Aðferðin hentar þessvegna vel í kennslu í erlendum málum sem og í íslensku sem annað mál.

Með þvi að virkja  þann fjársjóð sem felst í tungumálaforða tví- og fjöltyngdra nemenda í kennslunni er hægt að stuðla að áhuga, forvitni og aukinni tungumálakunnátttu annarra nemenda. Menningarmót í tungumálakennslunni er ein leið.

Hugmyndafræði menningarmótsins á góðan samhljóm með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þá sérstaklega greinum 29 og 30.

Verkefnið varð til í kennslustofu í Danmörku, en hefur þróast á Íslandi síðan 2008 og er orðið fastur þáttur í starfsemi ýmsa skóla í Reykjavík.

Hægt er að halda menningarmótin á bókasafninu í ykkar hverfi eða í skólanum!
Hafið samband við: Kristínu R. Vilhjálmsdóttur, kennara og verkefnastjóra fjölmenningar, kristin.r.vilhjalmsdottir@reykjavik.is.