MANGAMANGA | Myndasögusýning til 4. júní

Sýnishorn af síðunum sem bárust í keppnina í ár

MANGAMANGA | Myndasögusýning
Borgarbókasafnið Menningarhús Grófinni, 6. maí - 4. júní 2017

Laugardaginn 6. maí kl. 15 opnaði í Grófinni sýning á þeim sögum sem bárust í árlega Myndasögusamkeppni Borgarbókasafnsins og Myndlistaskólans í Reykjavík, sem haldin er í samstarfi við Nexus.

Katla Pálsdóttir bar sigur úr bítum í ár, með sögunni Myndasöguflakk, og hlaut að launum námskeið að eigin vali hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Saga Kötlu hefst á alvarlegum nótum í myrkum mánafjöllum en tekur snarpa beygu yfir í ærsl og hrekki þar sem sjóræningjarnir Monkey D. Luffy og Brook úr One Piece pönkast í öðrum þekktum myndasögupersónum, þeirra á meðal Astro Boy, Gormi og hinum dulnefnda V.

Þrír höfundar hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir falleg og frumleg innlegg í keppnina og hlutu að launum teiknisett frá myndasöguversluninni Nexus. Ingi Rúnar Kjartansson fyrir söguna Reykjavík 2067, sem gerist þrjátíu árum eftir að heimsstyrjöld hefur svo gott sem útrýmt lífi á Jörðinni og Reykvíkingar fela sig fyrir manndrápsvélmennum líkt og rottur í holum. Emil Logi Heimisson fyrir söguna Sá útvaldi, þar sem hinn hárprúði Jim er leiddur í litríkan töfraheim af ævintýraverunum Júní og Þristi, og þjálfaður til bardaga við illu rósina Rósmarín. Og Harpa Hrafnborg fyrir staka mynd án titils, þar sem ókennilegur broskarl í rósóttum sundbuxum axlar svartan baug.

Þema keppninnar í ár er MANGA, í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá því að myndasagan One Piece eftir hinn japanska Eiichiro Oda hóf göngu sína. Sagan um sjóræningjann upprennandi Monkey D. Luffy er enn í fullum gangi og af sölutölum að dæma er hún einfaldlega vinsælasta manga veraldar. 

En hvað er manga? Manga er að uppruna japanska orðið fyrir myndasögu, en er nú notað til að vísa til myndasagna sem eru í fyrsta lagi japanskar eða eftir japanska höfunda, og fylgja í öðru lagi ákveðinni fagurfræði sem varð til þar í landi við lok nítjándu aldar. Fyrir hinn almenna lesanda skiptir þjóðerni höfundarins sennilega minna máli en sjálf myndasagan, og orðið manga gæti því kallað fram hugmyndir um persónusköpun, flæði sögunnar, húmor o.fl. sem greinir manga frá hefðbundnum evrópskum og bandarískum myndasögum. Á Borgarbókasafninu er manga skilgreindur flokkur innan myndasögudeildanna, á borð við glæpasögur, ofurhetjusögur og evrópskar myndasögur, og sérlega vinsæll meðal safngesta. 

Katla Pálsdóttir bar sigur úr bítum í ár, með sögunni Myndasöguflakk, og hlaut að launum námskeið að eigin vali hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Saga Kötlu hefst á alvarlegum nótum í myrkum mánafjöllum en tekur snarpa beygu yfir í ærsl og hrekki þar sem sjóræningjarnir Monkey D. Luffy og Brook úr One Piece pönkast í öðrum þekktum myndasögupersónum, þeirra á meðal Astro Boy, Gormi og hinum dulnefnda V.

Þrír höfundar hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir falleg og frumleg innlegg í keppnina og hlutu að launum teiknisett frá myndasöguversluninni Nexus. Ingi Rúnar Kjartansson fyrir söguna Reykjavík 2067, sem gerist þrjátíu árum eftir að heimsstyrjöld hefur svo gott sem útrýmt lífi á Jörðinni og Reykvíkingar fela sig fyrir manndrápsvélmennum líkt og rottur í holum. Emil Logi Heimisson fyrir söguna Sá útvaldi, þar sem hinn hárprúði Jim er leiddur í litríkan töfraheim af ævintýraverunum Júní og Þristi, og þjálfaður til bardaga við illu rósina Rósmarín. Og Harpa Hrafnborg fyrir staka mynd án titils, þar sem ókennilegur broskarl í rósóttum sundbuxum axlar svartan baug.

Myndasögusýningin stendur út 4. júní á fyrstu hæð Borgarbókasafnsins í Grófinni, Tryggvagötu 15.

Nánari upplýsingar veitir:
Sunna Dís Másdóttir
sunna.dis.masdottir [at] reykjavik.is
s. 411-6109

 

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 4. júní 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

13:00

Viðburður endar: 

16:00