Ljóðaslamm | Láttu ljóð þitt skína!

Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins | Láttu ljóð þitt skína! 

Tjarnarbíói, fimmtudagur 30. mars kl. 20- 23

Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins 2017 fer fram í Tjarnarbíói fimmtudaginn 30. mars. Skráning hefst fimmtudaginn 2. mars kl. 10 á vertumed [at] borgarbokasafn.is. Láttu ljóð þitt skína og taktu þátt í Ljóðaslammi! Hámarksfjöldi þátttakenda er fimmtán - fyrstir skrá, fyrstir fá! 

Ljóðaslamm felst í flutningi frumsamins ljóðs, þar sem áherslan er ekki síður á flutninginn en á ljóðið sjálft. Þannig telst hefðbundinn ljóðaupplestur ekki til ljóðaslamms, heldur er áherslan á ljóðaflutning sem sviðslist. Ljóðaslamm hefur verið árlegur viðburður í dagskrá Borgarbókasafnsins frá árinu 2008, að árinu 2016 undanskildu þegar slammið féll niður. Í ár fer Ljóðaslammið fram með breyttum áherslum og er fært nær evrópskri slammhefð. Keppt verður í þremur umferðum þar til einn flytjandi stendur uppi sem sigurvegari. Ekki verður eiginleg dómnefnd til að leggja mat á flutning og texta, heldur munu viðtökur áhorfenda ráða úrslitum. Slammstýra verður Vigdís Ósk Howser Harðardóttir, en hún tekur þátt í evrópska samstarfsverkefninu Drop the Mic fyrir hönd Reykjavíkur Bókmenntaborgar.  

Reglur Ljóðaslammsins 2017 eru eftirfarandi: 

  • Reglur Ljóðaslamms Borgarbókasafnsins 2017: Láttu ljóð þitt skína!
  • Keppnin er opin einstaklingum, ekki liðum.
  • Ljóð verður að vera frumsamið af flytjanda. Minnisblað er leyfilegt á sviði. 
  • Ljóð skal vera á íslensku.
  • Ljóð skal taka hámark 3 mínútur í flutningi. Fari flutningur fram yfir 3 mínútur og 10 sek fær flytjandi refsistig.
  • Keppt er í umferðum. Þeir fimm keppendur sem hlutu bestar viðtökur í fyrstu umferð halda áfram í aðra umferð og þeir tveir efstu keppa um sigurinn. Flytja skal nýtt ljóð í hverri umferð og skal hver keppandi því mæta til leiks með þrjá texta tilbúna til flutnings. 
  • Ekki er leyfilegt að notast við leikmuni eða hljóðfæri. 
  • Viðtökur áhorfenda skera úr um hvaða ljóð ber sigur af hólmi. Notast verður við hávaðamæli til að skera úr um hver hlýtur bestar viðtökur. 

Í febrúar og mars stendur Borgarbókasafnið jafnframt fyrir röð ljóðasmiðja þar sem ljóðunnendum gefst kostur á að vinna undir handleiðslu nokkurra færustu ungskálda landsins. Vigdís stýrir slammsmiðju fyrir áhugasama slammara laugardaginn 11. mars í Borgarbókasafninu Menningarhúsi Spönginni. 

Nánari upplýsingar veitir: 

Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri, sunna.dis.masdottir [at] reykjavik.is, s. 411 6109 og 699 3936

Dagsetning viðburðar: 

Fimmtudagur, 30. mars 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

20:00

Viðburður endar: 

23:00