Ljóðaslamm

Ljóðaslamm er einn af árlegum viðburðum á Borgarbókasafninu. Á árunum 2008-2015 fór keppnin fram í Borgarbókasafninu Grófinni á Safnanótt og var ætluð ungu fólki á aldrinum 15-25 ára. Ákveðið var þema fyrir hvert ár, s.s. spenna, hrollur, væmni, myrkur og bilun. Slammið féll niður árið 2016 vegna ónógrar þáttöku. Hægt er að sjá upptökur, myndir og frekari upplýsingar um slömm síðustu fimm ára með því að smella á ártölin hér til hliðar, upptökur af slömmunum allt frá upphafi má finna á youtube-síðu Borgarbókasafns.

Ljóðaslamm felst í flutningi frumsamins ljóðs, þar sem áherslan er ekki síður á flutninginn en á ljóðið sjálft. Þannig telst hefðbundinn ljóðaupplestur ekki til ljóðaslamms, heldur er áherslan á ljóðaflutning sem sviðslist.

Ljóðaslammið 2017 verður með eilítið breyttu sniði, en það fer fram í Tjarnarbíói þann 30. mars 2017.  

Reglur Ljóðaslamms Borgarbókasafnsins 2017: Láttu ljóð þitt skína!

Keppnin er opin einstaklingum, ekki liðum.

Ljóð verður að vera frumsamið af flytjanda. Minnisblað er leyfilegt á sviði. 

Ljóð skal taka hámark 3 mínútur í flutningi. Fari flutningur fram yfir 3 mínútur og 10 sek fær flytjandi refsistig.

Keppt er í umferðum. Þeir fimm keppendur sem hlutu bestar viðtökur í fyrstu umferð halda áfram í aðra umferð og þeir tveir efstu keppa um sigurinn. Flytja skal nýtt ljóð í hverri umferð og skal hver keppandi því mæta til leiks með þrjá texta tilbúna til flutnings. 

Ekki er leyfilegt að notast við leikmuni eða hljóðfæri. 

Viðtökur áhorfenda skera úr um hvaða ljóð ber sigur af hólmi. Notast verður við hávaðamæli til að skera úr um hver hlýtur bestar viðtökur. 

Skráning fer fram á vertumed@borgarbokasafn.is. Skráning hefst fimmtudaginn 2. mars. Hámarksfjöldi þátttakenda er 15 - fyrstir skrá, fyrstir fá! 

  • Ljóðaslamm 2014 - Mynd: Markús Már Efraím
  • Ljóðaslamm 2014 - Mynd: Markús Már Efraím
  • Ljóðaslamm 2014 - Mynd: Markús Már Efraím
  • Ljóðaslamm 2014 - Mynd: Markús Már Efraím