Klassík í hádeginu | Elsa Waage og Nína Margrét flytja ljóðasöngva Wagners

Klassík í hádeginu | Wesendonck-ljóð Wagners

Elsa Waage og Nína Margrét Grímsdóttir flytja verk eftir Richard Wagner

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Sunnudaginn 10. desember kl. 13.15 - 14.00 

Ókeypis aðgangur

Nína Margrét Grímsdóttir verður með kveðjutónleika í tónleikaröðinni Klassík í hádeginu sem haldin hefur verið í Gerðubergi frá árinu 2008. Á tónleikunum í Gerðubergi flytja þær Elsa Waage, mezzosópran, og Nína Margrét Grímsdóttir, píanóleikari, Wesendonck-ljóð Richard Wagners frá árunum 1857-8 sem urðu honum efniviður óperunnar Tristan og Ísold. Þá verður einnig flutt á tónleikunum aría Erdu, Weiche Wotan, úr Rínargullinu.

Aðgangur á tónleikana er ókeypis og hvetjum við alla sem vilja eiga notalega stund á aðventunni að koma í Gerðuberg og hlýða á þessi frægu sönglög og aríu úr tónbókmenntunum.

Elsa Waage lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur. Að loknu námi lá leið hennar fyrst til Amsterdam og síðar til Washington D.C í Bandaríkjunum þar sem hún lauk B.M.-prófi í tónlist við Catholic University of America. Að því loknu tók við þriggja ára nám við óperustúdíó í New York. Elsa hefur sungið ýmis óperuhlutverk bæði hér á landi, á Ítalíu, í Bandaríkjunum, Frakklandi, Mexiko og í Svíþjóð, meðal annars hlutverk Ulricu í Grímudansleik, Emilíu í Óþelló, Principessa í Suor Angelica og Preziosilla í Valdi örlaganna, Quickly í Falstaff og Erdu í Siegfried og Rínargullinu. Undanfarin ár hefur Elsa sungið við ýmis ítölsk óperuhús, nú síðast í Feneyjaóperunni í uppsetningu á Valkyrjunni eftir Wagner. Elsa söng hlutverk Azucenu í Il Trovatore eftir Verdi haustið 2012 og var tilnefnd bæði til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Grímunnar fyrir þann flutning. Hún flutti hlutverk Helgu Magnúsdóttur í Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson árð 2014 hjá Íslensku óperunni. Elsa hefur lagt ríka áherslu á tónleikahald á undanförnum árum og komið fram með hinum ýmsu sinfóníuhljómsveitum og píanóleikurum bæði hér á landi, í Evrópu og Bandaríkjunum. Má þar sérstaklega nefna flutning hennar á verkum Richards Wagner með The National Orchestra of Kiev Ukrania, RAI National Radio and Television Orchestra of Italy, Orchestre de Chambre of Lausanne og fleiri. Sérstaka viðurkenningu hefur Elsa einnig hlotið fyrir flutning sinn á verkum Gustavs Mahler, Das Lied von der Erde, med Carinthiu-sinfóníuhljómsveitinni í Austurríki. Elsa hefur komið fram í sjónvarpi og útvarpi bæði á Íslandi, Ítalíu, Mexíkó og Færeyjum.

Nína Margrét Grímsdóttir lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1985, LGSM prófi frá Guildhall School of Music and Drama, Meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Nína Margrét hefur komið fram á Íslandi, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari, með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref. Nína Margrét hefur verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Klassík í hádeginu í Gerðubergi frá upphafi og er ennfremur listrænn stjórnandi Reykjavik Classics í Eldborg Hörpu. Hún hefur kennt við tónlistarháskóla hérlendis og erlendis auk þess að flytja reglulega fyrirlestra og masterklassa um tónlist og tónlistarrannsóknir. Árið 2014 var doktorsritgerð hennar um píanóverk Páls Ísólfssonar gefin út af Lambert Academic Publishing í Þýskalandi. 

------

Klassík í hádeginu hefur verið á dagskrá Gerðubergs frá árinu 2008.
Boðið er upp á fjölbreytta og metnaðarfulla dagskrá sem miðast við að gefa almenningi aðgang að klassískri tónlist og flytjendum í hæsta gæðaflokki. Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari hefur frá upphafi stýrt tónleikaröðinni. 

 

Nánari upplýsingar veita:
Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari
nina [at] ninamargret.com
899-6413

Guðrún Dís Jónatansdóttir, deildarstjóri fræðslu og miðlunar
gudrun.dis.jonatansdottir [at] reykjavik.is
411-6115

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 10. desember 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

13:15

Viðburður endar: 

14:00