Klassík í hádeginu | Schubert Arpeggione & valsar

Klassík í hádeginu | Schubert Arpeggione & Valsar

Sigurgeir Agnarsson, selló og Nína Margrét Grímsdóttir, píanó, flytja Arpeggione sónata Schuberts D. 821 frá árinu 1824 ásamt blíðum píanóvölsum söngvaskáldsins.

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Föstudaginn 17. nóvember kl. 12.15-13.00
Tónleikarnir verða endurteknir sunnudaginn 19. nóvember kl. 13.15-14.00

Ókeypis aðgangur

Flutt verður Arpeggione sónata Schuberts D. 821 frá árinu 1824 ásamt blíðum píanóvölsum söngvaskáldsins. Njótum tónlistar Vínarborgar eins og Schubert hugsaði sér hana, flutta fyrir vini og velunnara á góðri stund.

Sigurgeir Agnarsson útskrifaðist árið 1995 með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Frekara framhaldsnám stundaði hann í New England Conservatory of Music í Bandaríkjunum hjá Laurence Lesser og David Wells og Robert Schumann tónlistarháskólanum í Þýskalandi hjá Prof. Johannes Goritzki. Sigurgeir hefur leikið með ýmsum kammerhópum og hljómsveitum, tekið þátt í tónlistarhátíðum hér heima og erlendis, haldið einleikstónleika og komið fram sem einleikari, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Blásarasveit Reykjavíkur og Bochumer Symphoniker. Hann var valinn fulltrúi Íslands til að koma fram á tónleikaröðinni „Podium of Young European Musicians” í Goethe stofnunni í Brussel. Frá árinu 2003 hefur Sigurgeir gegnt stöðu uppfærslumanns í sellódeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sigurgeir er jafnframt deildarstjóri strengjadeildar Tónlistarskólans í Reykjavík og stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hann hefur tekið upp m.a. fyrir RÚV og Naxos. Sigurgeir var einn af flytjendum á Reykjavík Midsummer Music hátiðinni sem haldin var í fyrsta skipti í Hörpu í júní 2012. Árið 2013 kom hann fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum undir stjórn Osmo Vanska og lék með Hollensku kammerhljómsveitinni á tvennum tónleikum í Concertgebouw í Amsterdam.  Sigurgeir er listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar.

Nína Margrét Grímsdóttir lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1985, LGSM prófi frá Guildhall School of Music and Drama, Meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Nína Margrét hefur komið fram á Íslandi, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari, með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref. Nína Margrét hefur verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Klassík í hádeginu í Gerðubergi frá upphafi og er ennfremur listrænn stjórnandi Reykjavik Classics í Eldborg Hörpu. Hún hefur kennt við tónlistarháskóla hérlendis og erlendis auk þess að flytja reglulega fyrirlestra og masterklassa um tónlist og tónlistarrannsóknir. Árið 2014 var doktorsritgerð hennar um píanóverk Páls Ísólfssonar gefin út af Lambert Academic Publishing í Þýskalandi. 

Næstu tónleikar.

Klassík í hádeginu | Wesendonck-ljóð Wagners

Elsa Waage og Nína Margrét Grímsdóttir flytja verk eftir Richard Wagner.

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Föstudaginn 8. desember kl. 12.15-13.00 og sunnudaginn 10. desember kl. 13.15-14.00

------

Klassík í hádeginu hefur verið á dagskrá Gerðubergs frá árinu 2008.
Boðið er upp á fjölbreytta og metnaðarfulla dagskrá sem miðast við að gefa almenningi aðgang að klassískri tónlist og flytjendum í hæsta gæðaflokki. Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari hefur frá upphafi stýrt tónleikaröðinni. 

 

Nánari upplýsingar veita:
Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari
nina [at] ninamargret.com
899-6413

Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri
holmfridur.olafsdottir [at] reykjavik.is
S. 4116114

Dagsetning viðburðar: 

Föstudagur, 17. nóvember 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

12:15

Viðburður endar: 

13:00