Klassík í hádeginu | Debussy og Fauré – fjórhentar svítur

Anna Guðný Guðmundsdóttir og Nína Margrét Grímsdóttir Gerðuberg

Anna Guðný Guðmundsdóttir og Nína Margrét Grímsdóttir leika fjórhentar svítur eftir Debussy og Fauré

Sunnudaginn 26. mars kl. 13.15 - 14.00

Ókeypis aðgangur

Anna Guðný Guðmundsdóttir og Nína Margrét Grímsdóttir leika fjórhentar svítur fyrir píanó eftir frönsku tónskáldin Debussy og Fauré á síðari tónleikum hádegistónleikaraðarinnar Klassík í hádeginu. Um ræðir Petite Suite frá 1889 þar sem Debussy lítur aftur til fortíðarinnar og semur verk sitt í anda franska tónskálda endurreisnartímabilsins, og svo hina barnslegu Dolly Suite óp. 56 frá 1896 sem Fauré tileinkaði Hélène dóttur söngkonunnar Emmu Bardac, sem kölluð var Dolly. Báðar svíturnar hafa notið mikilla vinsælda gegnum tíðina og verið útsettar fyrir ýmsar hljóðfærasamsetningar, og verða hér leiknar af tveimur píanóleikurum.

Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari hlaut fastráðningu við Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2005.  Hún brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1979 þar sem kennarar hennar voru Hermína S. Kristjánsson, Jón Nordal og Margrét Eiríksdóttir, en þangað kom hún úr Barnamúsíkskólanum þar sem Stefán Edelstein var kennari hennar.   Hún stundaði Post Graduate-nám við Guildhall School of Music í Lundúnum.  Hún hefur síðan starfað á Íslandi við margvísleg störf píanistans, í kammertónlist, meðleik og sem einleikari.  Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík, svo og innan Tíbrár tónleikaraðarinnar í Salnum í Kópavogi.  Hún er píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur, hefur ferðast víða með henni og leikið inn á geisladiska, en alls hefur hún leikið inn á um 30 diska með ýmsum listamönnum. Hún vann við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til ársins 2005.  Í dag starfar hún sem píanóleikari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2009 sem flytjandi ársins.

Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1985, LGSM prófi frá Guildhall School of Music and Drama, Meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Nína Margrét hefur komið fram á Íslandi, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari, með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref. Nína Margrét hefur verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Klassík í hádeginu í Gerðubergi frá upphafi og er ennfremur listrænn stjórnandi Reykjavik Classics í Eldborg Hörpu. Hún hefur kennt við tónlistarháskóla hérlendis og erlendis auk þess að flytja reglulega fyrirlestra og masterklassa um tónlist og tónlistarrannsóknir. Árið 2014 var doktorsritgerð hennar um píanóverk Páls Ísólfssonar gefin út af Lambert Academic Publishing í Þýskalandi. 

---

Klassík í hádeginu hefur verið á dagskrá Gerðubergs frá árinu 2008. Boðið er upp á fjölbreytta og metnaðarfulla dagskrá sem miðast við að gefa almenningi aðgang að klassískri tónlist og flytjendum í hæsta gæðaflokki. Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari hefur frá upphafi stýrt tónleikaröðinni. 

 

Nánari upplýsingar veita:
Nína Margrét Grímsdóttir
nina [at] ninamargret.com
899 6413

Inga María Leifsdóttir
inga.maria.leifsdottir [at] reykjavik.is
411-6188

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 26. mars 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

13:15

Viðburður endar: 

14:00