Gróður elds og ísa | 9.9 – 19.11

Derek Mundell vatnslitur

Derek K. Mundell sýnir vatnslitaverk

Borgarbókasafnið|Menningarhús Gerðubergi
9. september – 19. nóvember 2017

Dereks býður gestum í listamannaspjall sunnudagana 1. og 29. október kl. 14 og eru allir velkomnir.
Sýningin er opin virka daga frá kl. 9-18 og um helgar frá 13-16.

Hvernig væri ásýnd öræfa og annarra óbyggða á Íslandi ef enginn væri mosinn? Hraunið allt væri nakið án þykkrar grágrænnar kápu gamburmosans og dý og seytlur fjallaskorninga hefðu ekki skærgrænar breiður dýjahnapps og lindaskarts til að vökva. Hvergi væri þá heldur að finna aðrar þær fjölmörgu tegundir mosa sem fundist hafa í náttúru Íslands.

Mosaþembur eru yrkisefni flestra mynda á sýningunni en þar eru líka vetrarmyndir þar sem ætla verður að mosinn liggi undir snjó og bíði vorkomunnar. Áhugaverðast við mosann frá sjónarhóli myndlistarinnar eru litbrigði hans þegar birtan breytist. Í sólskini framkallast nýtt litróf og það gerist líka þegar bregður af þurrki yfir í vætutíð. Gamburmosinn er þá ekki lengur grár en hraunbreiðurnar litast grænar og dýjamosinn tindrar af vatnsdropum. Og innan um fléttast hreindýramosinn, ljósgrár með fölum fjólubláum tilbrigðum.

Málun með vatnslitum byggist líka á samspili birtu og skugga og áhrifum vatns er það bleytir pappírinn. Þess vegna geta vatnslitir öðrum efnum fremur fangað þessi fíngerðu en þó dramatísku litbrigði þegar vel tekst til. Sýningin lýsir glímunni við þetta verkefni.

Derek K Mundell B.Sc., B.A.  fæddist í Englandi 1951 en fluttist til Íslands 1976 og hefur búið hér síðan. Fyrir þrjátíu árum eða svo vaknaði áhugi hans á að mála með vatnslitum og að því verkefni hefur hann unnið síðan. Í mörg ár þróaði hann verk sín og tækni sem áhugamál eingöngu en vann fulla vinnu við vísindastörf og síðar að markaðsmálum. Hann naut á þessum tíma leiðsagnar margra listamanna og kennara hérlendis, í Englandi og Bandaríkjunum, og þeir vörðuðu þá spennandi leið sem fólst í þekkingu á vatnslitamálun.

 Árið 2007 greip Derek tækifærið til að skipta um stefnu í störfum sínum og hefur síðan kennt vatnslitamálun á námskeiðum fyrir fullorðna í Myndlistarskóla Kópavogs. Vorið 2011 lauk hann B.A. námi í listfræði og listasögu frá Háskóla Íslands.

Derek hefur haldið fimm einkasýningar hérlendis og tekið þátt í nokkrum samsýningum. Hann á verk í einkasöfnum og á stöðum opnum almenningi á Íslandi, í Kanada og í Bretlandi.

Einkasýningar:
2001: Gallerí Reykjavík,  Yrkisföng.
2011: Íslensk grafík,  Sjónhending.
2012: Korpúlsstaðir, Smámyndir.
2013: Þjóðmenningarhúsið,  Birtubrigði.
2017: Lithús Ófeigs, Stillur.

Samsýningar:
1996: Gallerí Fold, 8 plús 40 gera 48.
2010: Norræna húsið, Nordisk Akvarell 2010.  
2012: Huddinge kommun, Svíþjóð,  Nordisk Akvarell 2012.
2014: Mexíkóborg, 11. International Watercolor Biennial.
2015: Huddinge kommun, Svíþjóð,  Nordisk Akvarell 2015.
2016: Avignon, Frakkland, 19th Exhibition European Confederation of Watercolour Societies.
​2017: Hillerød Kunstforening, Danmörk, Worldwide watercolour exhibition.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Guðrún Dís Jónatansdóttir
Netfang: gudrun.dis.jonatansdottir [at] reykjavik.is

 

 

 

 

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 19. nóvember 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

09:00

Viðburður endar: 

18:00