Grænar bækur

Í söfnum Borgarbókasafns er vettvangur til að koma á framfæri góðum og áhugaverðum bókum. Þetta er eins konar skiptibókamarkaður að því undanskildu að grænu bækurnar eru sérvaldar og merktar sérstaklega þessu verkefni Græn bók – góð bók.

Gestir safnsins eru hvattir til að koma með bækur sem þeir eru búnir að lesa og finnst skemmtilegar og leyfa öðrum að njóta þeirra. Skilyrði er að þær séu vel með farnar, hreinar og áhugaverðar.

Öllum er frjálst að taka með sér bók sér að kostnaðarlausu. Hægt er skila henni aftur í endurlesturinn þannig að hún haldi áfram flakka á milli og gleðja lesendur.

Markmið verkefnisins er að auðvelda aðgengi að bókum, hvetja til lesturs, ýta undir endurvinnslu og -nýtingu og að hafa það skemmtilegt.