Gleðilegan Hönnunarmars

  • Borgarbókasafnið á Hönnunarmars

Við bjóðum ykkur velkomin á þær sýningar sem settar hafa verið upp í menningarhúsum Borgarbókasafnsins í tilefni af Hönnunarmars. Opnanir eru sem hér segir:

Hringrás | Ólöf Einarsdóttir 
15. mars kl. 17:30 í Menningarhúsi Kringlunni

Fimmtudaginn 15. mars kl. 17:30 opnar sýningin á verkum listakonunnar Ólafar Einarsdóttur. Sýningin nefnist Hringrás. Í sýningunni lítur Ólöf til myndheims sem handverk fortíðarinnar birtir okkur, aðallega til hins keltneska, sem helst hefur verið sýnilegur í handverkshefðum silfursmíði og tréskurðar á Íslandi. Hún tengir þessi fornu form nútímanum með því að vinna smærri myndverk og skartgripi með hinni ævafornu vefnaðaraðferð, spjaldvefnaði, og byggja á þeim formum, einkum hringforminu. Gleðilegan Hönnunarmars! 

Ex Libris | Mitt eigið bókasafn
16. mars kl. 16:00 í Menningarhúsi Grófinni

Sýningin opnar formlega 16. mars kl. 16:00 og er hún sett upp í samstarfi við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Landsbókasafn Íslands. Í dag eru bókmerki ekki algeng sjón en áður fyrr voru slík skrautmerki hönnuð af listafólki og sett innan á bókakápur til að tilgreina eiganda þeirra. Óhætt er að segja að um er að ræða menningarverðmæti sem lítið hefur farið fyrir og gaman er að kynna betur fyrir yngri kynslóðinni. Nemendur við Myndlistaskólann í Reykjavík spreyta sig á hönnun bókmerkja með skírskotun í hefðina en um leið með skýra tengingu inn í nútímann. Á sýningartímanum verður m.a. boðið upp á leiðsögn og smiðjur og verður sú dagskrá kynnt betur er nær dregur.

Í leikjaheimi | Íslenskir tölvuleikir og hönnun þeirra
16. mars kl. 16:00 í Menningarhúsi Gerðubergi

Í tilefni af Hönnunarmars verður opnuð sýning í Gerðubergi helguð hönnun íslenskra tölvuleikja. Sýningin verður sett upp í tengslum við námsstefnuna Leikum okkur með menningararfinn sem haldin er föstudaginn 16. mars. Þar munu leikjaiðnaðurinn, söfn og stofnanir koma saman og eiga samtal um leikjavæðingu náttúru- og minjasafna. Hægt verður að prófa þá leiki sem verið er að vinna að hér á landi með sérstaka áherslu á þá leiki sem leggja mikið upp úr hönnun. Boðið verður upp á tæknismiðju sem tengist sýningunni fyrir krakka og verður auglýst síðar. 

Meðal þátttakenda eru: Buds, LOKBRÁ, Sautjándi nóvember, Mussilla, Þrír, Vegg, Locatify, Grow og Gunnarsstofnun.