Fjölþing | Ljósmyndasýning 17.3.-4.6.

Hildur Björnsdóttir - Fjölþing - Ljósmyndasýning Borgarbókasafnið Gerðubergi

Hildur Björnsdóttir sýnir ljósmyndir og innsetningar frá ferðum sínum um Asíu

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
17. mars – 4. júní 2018

Hvernig upplifum við menningu sem er okkur fjarlæg og framandi? Hvernig getum við stuðlað að gagnkvæmri virðingu og skilningi á milli ólíkra menningarheima?  Hildur Björnsdóttir myndlistarkona hefur á undanförnum árum ferðast víða um Asíu og kynnst fjölbreyttri menningu, trúarbrögðum og lífsháttum í Tíbet, Víetnam, Kambódíu, Nepal, Indlandi og Tælandi. Hún safnar í sarpinn með því að taka ljósmyndir, skrifa og skissa í dagbókina sína. Á sýningunni Fjölþing er að finna listræna úrvinnslu á þeirri nýju sýn og þekkingu sem Hildur hefur öðlast með því að komast í kynni við fólk á öllum aldri, búa á meðal þess og heimsækja staði sem margir bera merki um mannlega þjáningu og sögulega atburði. Sýningin vekur upp margar spurningar og býður áhorfandanum í heimspekilegt ferðalag á framandi slóðir.

Heimsóknin í S-21 fangabúðirnar í Kambódíu er uppspretta verka þar sem Hildur miðlar þeirri sterku tilfinningu, sem hún upplifði á staðnum, með því að flétta myndir af fórnarlömbum inn í umhverfið sem við blasir í dag. Ljósmyndirnar er prentaðar beint á burstaðar álplötur og hið fallega samspil dagsbirtu og ljóskastara skapar áhrifaríka þrívíddartilfinningu. Hildur vinnur jafnframt með innsetningar þar sem hún teflir saman teikningum, letri, landakortum og veraldlegum hlutum sem hún sankaði að sér á ferðum sínum.

Við opnun sýningarinnar laugardaginn 17. mars spjallar Hildur við gesti um tildrög verka sinna og gefur þeim dýpri innsýn í hvernig hún vinnur úr upplifun og tilfinningum sínum gagnvart viðfangsefninu með miðlum listarinnar. 

Á Heimspekikaffi 21. mars kl. 20 nk. ræddi Gunnar Hersveinn heimspekingur við Hildi um tildrög verka hennar, ferðalög um framandi menningarheima og velta upp spurningum um frelsi, tjáningu, samfélög manna og trúarbrögð. Sjá nánar.

Laugardaginn 5. maí kl. 14 tekur Hildur á móti gestum og leiðir þá um sýninguna. Sjá nánar.

Hildur Björnsdóttir er fædd árið 1960. Hún hefur stundað nám í myndlist og kennslufræðum á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð og hefur tekið virkan þátt í myndlistarlífinu í þessum þremur löndum. Hún ólst upp á Íslandi og sækir gjarnan innblástur í verk sín í íslenska náttúru en er þó jafnframt mikill heimshornaflakkari eins og sýningin ber með sér. Hildur hefur búið og starfað í Noregi í 30 ár, sem myndlistarmaður og –kennari. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum og haldið nokkrar einkasýningar, nú síðast í Akranesvita sumarið 2017. 

Nánari upplýsingar um listakonuna er að finna á heimasíðunni www.hildurb.no og hægt er að fylgja henni á samskiptamiðlinum Instragram @hildur_bjornsdottir.

Nánari upplýsingar veitir:
Ninna Margrét Þórarinsdóttir, verkefnastjóri sýningarhalds og miðlunar
Netfang: ninna.margret.thorarinsdottir [at] reykjavik.is
Sími: 411 6100 / 411 6170

 

Dagsetning viðburðar: 

mánudagur, 4. júní 2018

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

14:00

Viðburður endar: 

16:00