Dagur íslenskrar tungu - Raddir íslenskunnar hljóma!

Í tilefni af degi íslenskrar tungu 16.nóvember fögnum við íslenskunni í öllum þeim hljómbrigðum sem finna má í nærumhverfinu og spyrjum: „Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig?“ og „Af hverju ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna?“

Í dag hefst herferð á vegum Borgarbókasafnsins, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Vigdísarstofnunar, þar sem birt verður daglega nýtt örmyndband fram að degi íslenskrar tungu. Myndböndin varpa ljósi á og fagna ólíkum röddum íslenskunnar. Þau birtast fyrst á síðu dags íslenskrar tungu á Facebook.  

Stofnanirnar hvetja einnig nemendur, kennara og einstaklinga til að vinna saman að gerð örmyndbanda og leita svara við þessum spurningum, sem vekja okkur til umhugsunar um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur og um okkar eigið framlag til tungumálsins.

Myndböndin mega ekki vera lengri en ein mínúta og merkja skal þau með myllumerkinu #dagurislenskrartungu en einnig má deila þeim á vegg dags íslenskrar tungu á Facebook.

Á degi íslenskrar tungu verður Café Lingua í Gerðubergi tileinkað röddum íslenskunnar í samhljómi við herferðina. Allir velkomnir! 

Nánari upplýsingar veitir Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar, kristin.r.vilhjalmsdottir [at] reykjavik.is, s. 411 6220 og 618 1420.