Dúkkurnar frá Japan | 25. febrúar - 7. maí

Dúkkurnar frá Japan 

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi

Sýningin stendur til 7. maí og er opin virka daga frá 9-18 og um helgar 13-16

Dúkkur hafa verið hluti af daglegu lífi í Japan frá örófi alda. Japanskar dúkkur endurspegla siði landsins og lífsviðhorf Japana. Gegnum aldirnar hafa dúkkurnar þróast í margvísleg form og eru ólíkar eftir því hvaða héruðum landsins þær tilheyra. Dúkkurnar sýna einnig vel hefðbundið japanskt handbragð, til dæmis í textíl. Sýningin Dúkkurnar frá Japan gefur því áhugaverða innsýn í hina margbreytilegu japönsku menningu.

Gamlar japanskar þjóðhefðir á borð við „stúlkuhátíðina“ (Hina Matsuri) hafa átt sinn þátt í þessari sérstöku dúkkumenningu. Hin víðtæka aðdáun á dúkkunum hefur orðið til þess að þær eru ekki einungis taldar barnaleikföng, heldur einnig listaverk til að sýna og dást að. Einnig hafa japönsku Noh og Kabuki leikhúshefðirnar fléttast inn í dúkkuhefðina, sem enn hefur aukið við fjölbreytileika í framsetningunni.

Jafnvel í tæknivæddum heimi nútímans notast dúkkulistamenn við aldagamlar aðferðir til að gera hefðbundnar japanskar dúkkur sem njóta mikilla vinsælda, og á sér stað sífelld endurnýjun í hópi listamanna sem sérhæfa sig í gerð þeirra. Einkenni á dúkkum frá Japan er rólyndislegt yfirbragð andlitsins. Annað mikilvægt einkenni á dúkkunum er mikil litagleði, sem kallast á við forna búningahefð Japana.

Sýningin Dúkkurnar frá Japan opnar á efri hæð Gerðubergs laugardaginn 25. febrúar. Á sýningunni verða sýndar um 70 dúkkur, sem skiptast í afar fjölbreytilega flokka.

 

Nánari upplýsingar veita:
Kristín Þóra Guðbjartsdóttir
kristin.thora.gudbjartsdottir [at] reykjavik.is
411 6187

 

 

 

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 7. maí 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

00:00

Viðburður endar: 

00:00