Cocina Rodríguez - nýtt kaffihús í Breiðholti

  • Evelyn Rodríguez og Óli Geir Jóhannesson

Um áramótin opnuðu Evelyn Rodriguez og Óli Geir Jóhannesson nýtt kaffihús undir heitinu Cocina Rodrígues í Gerðubergi. Þau bjóða gesti velkomna með bros á vör og reiða fram huggulegar veitingar á degi hverjum fyrir gesti og gangandi. Þau sjá einnig um að þjóna viðskiptavinum hússins og bera fram veitingar fyrir fundar- og ráðstefnugesti. Maturinn er allur heimatilbúinn úr íslensku hráefni en með skemmtilega framandi ívafi því Evelyn á rætur að rekja til Dómíniska lýðveldisins. Óli er líka ansi liðtækur í bakstrinum og ilmurinn af kökunum hans svíkur engan. Gestir kaffihússins geta hreiðrað um sig í notalegu umhverfi kaffihússins, skoðað blöð og tímarit af bókasafninu með rjúkandi kaffibollann við hendina. Kjarngóður hádegismatur er í boði alla virka daga kl. 11:30 – 13:00 og á laugardögum einnig en þá er opið á milli 13:00 og 16:00. Á sunnudögum er boðið upp á gott kaffi og með því. 

Hróður Cocina Rodríguez breiðist hratt út en um helgina var sérlega mikið líf í húsinu enda margt um að vera. Circus Lumineszenz frá Austurríki heilluðu börn og fjölskyldur þeirra upp úr skónum með ljósaleikvellinum sem settur var upp í tilefni Vetrarhátíðar og sýningargestir streymdu að til að missa ekki af sýningu hafnfirsku listakonunnar Rúnu enda síðustu forvöð að sjá hana um helgina. Evelyn og Óli tóku að sjálfsögðu vel á móti gestunum og buðu upp á kjarngóða súpu og huggulegar kaffiveitingar. 

Þeir sem vilja kynna sér matseðilinn geta alltaf fundið hann hér á heimasíðunni eða skráð sig á póstlista í kaffihúsinu.

Cocina Rodríguez er opið alla virka daga frá kl.10–17, miðvikudagskvöld til 21 ef viðburðir eru í húsinu og um helgar frá kl. 13–16.

Veitingapantanir og nánari upplýsingar:
Netfang: cocinakaffi111 [at] gmail.com
Sími 771 1479 / 411 6191