Cafe Lingua - Raddir íslenskunnar

Raddir íslenskunnar | Cafe Lingua

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Fimmtudaginn 16. nóvember, kl 17:00

Á Degi íslenskrar tungu fögnum við íslenskunni á Café Lingua í öllum þeim hljómbrigðum sem finna má í Reykjavík með því að spjalla saman og leita meðal annars svara við spurningunum: 

Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig? og af hverju ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna?

Sérstakur gestur á Café Lingua verður Ana Stanicevic sem mun veita okkur innlit í sínar hugleiðingar um þessar spurningar. Ana er norðurlandafræðingur og í doktorsnámi í menningarfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur einnig fengist við þýðingar úr íslensku yfir á serbnesku. 
Ana er stundarkennari í Íslensku sem öðru máli og verða nemendur hennar heiðursgestir á þessari dagskrá sem er tileinkuð Degi íslenskrar tungu.

Fyrir utan innlegg Önu Stanicevic verður dagurinn haldinn hátíðlegur með sýningu á myndböndum sem Borgarbókasafnið hefur framleitt í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar og Vigdísarstofnun - alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar til að varpa ljósi á mismunandi raddir íslenskunnar. 

Myndböndin vekja okkur til umhugsunar um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur og okkar eigin framlags til tungumálsins. Hér fyrir neðan eru dæmi um ummæli viðmælendanna og munum við nota þau til að velta fyrir okkur fleiri hugleiðingum er varða íslenska tungu:

Eiríkur Rögnvaldsson: 
„Það skiptir máli að íslenskan sé fyrir alla.“

-Hvað getum við gert til þess að íslenskan sé fyrir alla?

Kristín R. Thorlacius: 
„Íslenskan hefur gefið mér stórkostlegar bækur.“

-Hvað hefur íslenskan gefið þér? 

Kriselle Lou Suson Jónsdóttir:
„Íslenskan er mikilvægur hluti af okkar daglega lífi.“

-Hvernig notar þú íslenskuna í þínu daglega lífi?

Allir eru velkomnir til að taka þátt í samtalinu og leggja sitt af mörkum til tungumálalandslags Reykjavíkur. Heitt á könnunni og aðgangur ókeypis.
 

Cafe Lingua er gátt inn í mismunandi menningarheima og er tilvalinn vettvangur fyrir þá sem vilja efla tungumálakunnáttu sína og hafa áhuga á að spreyta sig á ýmsum tungumálum.

Markmið Cafe Lingua er að virkja þau tungumál sem hafa ratað til Íslands og hafa auðgað mannlíf og menningu. Fólk með íslensku sem annað mál fær tækifæri til þess að tjá sig á íslensku sem og að kynna móðurmál sitt fyrir öðrum. Viðburðir haustsins fara fram í menningarhúsum Borgarbókasafnsins, í Veröld – húsi Vigdísar og í Stúdentakjallara Háskóla Íslands.

Hægt er að fylgjast með í Facebookhópnum Café Lingua - lifandi tungumál.

Café Lingua er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Veraldar.

Nánari upplýsingar veitir: 
Guðrún Baldvinsdóttir
gudrun.baldvinsdottir [at] reykjavik.is
Sími: 411-6182/411-6175

 

 

 

Dagsetning viðburðar: 

Fimmtudagur, 16. nóvember 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

17:00

Viðburður endar: 

18:30