Bókakaffi í Gerðubergi haustið 2017

Ævisögur í brennidepli á Bókakaffi í Gerðubergi

Bókakaffi í Gerðubergi er hluti kaffikvölda í Gerðubergi og haldið mánaðarlega yfir vetrarmánuðina, fjórða miðvikudagskvöld í mánuði. Það er vinsæll liður í viðburðadagskrá Borgarbókasafnsins. Spjallað er við rithöfunda og fræðimenn í notalegu og afslöppuðu umhverfi á kaffihúsinu í Gerðubergi. Gestum gefst færi á að taka þátt í spjallinu. Að þessu sinni beinum við sjónum sérstaklega að ævisögum, sjálfsævisögum og skáldævisögum og fáum að vanda góða gesti í heimsókn í Gerðuberg. 

Í september, miðvikudagskvöldið 27. september nánar tiltekið, sækir Ásdís Halla Bragadóttir Bókakaffi heim, með bók sína Tvísaga, móðir, dóttir, feður í farteskinu.  Bókin vakti mikla athygli, en þar segir Ásdís Halla frá ævi sinni og æsku, frá átakanlegri ævi móður sinnar og leit sinni að faðerni sínu af einlægni og hipsursleysi. Hún spjallar við Guðrúnu Baldvinsdóttur, bókmenntagagnrýnanda og deildarbókavörð. Meira um viðburðinn hér

Október er mánuður Lestrarhátíðar í Reykjavík, sem Bókmenntaborgin stendur fyrir. Miðvikudagskvöldið 25. október heimsækir rithöfundurinn Pétur Gunnarsson Gerðuberg. Hann fjallar um víðfræga ævisögu Benedikts Gröndal, Dægradvöl, en Lestrarhátíð er að þessu sinni helguð Gröndal, í tilefni af opnun Gröndalshúss fyrr á árinu. Pétur segir sömuleiðis frá eigin skrifum, en hann sendi í fyrra frá sér bókina Skriftir, þar sem hann er á persónulegri nótum en oft áður. Meira um viðburðinn hér

Miðvikudagskvöldið 22. nóvember ræðir Jón Gnarr um sjálfsævisögur og skáldævisögur,um  Indjána, Sjóræningja og Útlaga, en þrjú bindi ævisögu hans bera sömu nöfn. Síðasta bindi hennar, Útlaginn, sem kom út árið 2015, segir frá því þegar pönkarinn Jón Gunnar Kristinsson er sendur í skóla að Núpi í Dýrafirði, en dvölin þar reyndist Jóni afar þungbær. Meira um viðburðinn hér. 

Allar nánari upplýsingar veitir Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri, sunna.dis.masdottir [at] reykjavik.is, s. 411 6109 og 699 3936